Fótbolti

Segir fáránlegt að setja Messi í fimmta sætið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lionel Messi var magnaður á árinu en komst ekki í topp þrjá.
Lionel Messi var magnaður á árinu en komst ekki í topp þrjá. Vísir/Getty
Lionel Messi, leikmaður Barcelona sem fimm sinnum hefur verið kjörinn besti fótboltamaður heims, varð aðeins í fimmta sæti í kjörinu á dögunum þegar að Luka Modric rauf einokun hans og Cristiano Ronaldo á Gullboltanum.

Alls kusu 180 fréttamenn fyrir hönd franska tímaritsins France Football um hver væri sá besti á árinu en Modric stóð uppi með Gullboltann eftir að koma Króatíu í úrslitaleik HM og verða Evrópumeistari með Real Madrid fyrr á árinu.

Ernesto Valverde, þjálfari Barcelona, skilur ekki hvernig mönnum tókst að hafa Messi svona neðarlega en margir hafa bent á ótrúlega tölfræði Argentínumannsins á árinu.

„Við óskum allir Modric til hamingju en það er gjörsamlega fáránlegt að setja Messi í fimmta sætið. Ég ætla ekki einu sinni að ræða það hversu skrítin þessi verðlaun geta verið,“ segir Valverde en BBC greinir frá.

Messi varð markahæsti leikmaður Evrópu í fimmta sinn sem er met en hann skoraði 34 mörk fyrir Barcelona sem vann deild og bikar heima á Spáni.

Messi fékk aðeins 280 stig og var langt á eftir efstu mönnum en Luka Modric fékk 753 stig og Cristiano Roanldo 476 í annað sætið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×