Handbolti

Norsku stelpurnar hneykslast á myndatökunni á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Myndatakan í einu leikhléinu hjá norska liðinu.
Myndatakan í einu leikhléinu hjá norska liðinu. Skjámynd/NRK Sport
Norska kvennalandsliðið í handbolta spilar í dag síðasta leikinn sinn í riðlakeppni EM í Frakklandi og þurfa nausynlega á sigri að halda ætli liðið sér að vera í stöðu að tryggja sér sæti í undanúrslitunum.

Eftir tap á móti Þýskalandi unnu stelpurnar hans Þóris Hergeirssonar fjórtán marka sigur á Tékkum í leik tvö. Nú bíður leikur við rúmensku stelpurnar sem eru með fullt hús eftir tvo leiki.

Norsku landsliðskonurnar voru ánægðar með sigurinn á Tékkum en engu að síður voru þær mjög hneykslaðar daginn eftir leikinn. Ástæðan er myndataka frá leikhléum þeirra á EM.





Í stað þess að mynda leikhléin ofan frá eins og venjan hefur verið þá var myndtökumaðurinn staddur liggjandi á gólfinu og myndaði þær neðanfrá. Þetta þykir þeim norsku alls ekki við hæfi.

NRK fékk að heyra viðbrögð frá landsliðskonunum. „Ó nei, fjandinn sjálfur,“ sagði norski fyrirliðinn Stine Bredal Oftedal, við NRK, þegar hún sá myndatökuna af leikhléi norska liðsins.

„Ó nei, þetta er mjög slæm myndataka,“ sagði liðsfélagi hennar Veronica Kristiansen við NRK.

Sjónarhorn myndatökumannanna þýðir að þeir eru að mynda stelpurnar í rassahæð og það sést mun meira af rössum norsku stelpnanna en andlitum þeirra í nærmynd.

„Það hefði nú verið allt í lagi að sýna eitthvað af andlitunum okkar líka,“ sagði Malin Aune hneyksluð.

„Farið upp með myndavélina og sýnið það sem er að gerast í hópnum og á vellinum. Það er bæði mikilvægt fyrir okkur og áhorfendurna að vera með góða myndatöku,“ sagði Veronica Kristiansen.

„Auðvitað er myndvinnslan mjög mikilvæg. Ég vona að þeir fái þessi skilaboð og lagi þetta hjá sér,“ sagði Stine Bredal Oftedal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×