Erlent

Breskur „njósnari“ segist hafa verið pyntaður

Samúel Karl Ólason skrifar
Matthew Hedges og eiginkona hans Daniela Tejada.
Matthew Hedges og eiginkona hans Daniela Tejada. EPA/DANIELA TEJADA
Matthew Hedges, sem dæmdur var fyrir njósnir í Sameinuðu arabíska furstadæmunum, segist hafa verið andlega pyntaður í haldi yfirvalda. Hann segist einnig hafa verið beðinn um að gerast útsendari gegn bresku ríkisstjórninni. Hedges var handtekinn í maí og sat í einangrun í marga mánuði. Hann var svo dæmdur í lífstíðarfangelsi þann 21. nóvember og náðaður fimm dögum seinna.

Hann segist hafa játað að vera breskur njósnari vegna áðurnefndra pyntingar.

„Á þeim tímapunkti átti ég engra kosta völ,“ sagði Hedges í viðtali við BBC.



Hann segir fangaverði sína hafa haldið sér í algerri einangrun. Hann hafi einungis fengið að ræða við eiginkonu sína einu sinni í viku og mjög sjaldan fengið að sjá til sólar. Þá segir Hedges að lyfjum hafi nánast verið dælt í hann og hann hafi verið þvingaður til að standa heilu dagana.

Hedges átti bókaðan tíma hjá sálfræðingi vegna þunglyndis og kvíða þegar hann var handtekinn og segir fangavistina ekki hafa hjálpað honum á þeim vettvangi. Hann hafi reglulega fengið hræðsluköst og jafnvel íhugað að hengja sig í klefa sínum.

Hedges ferðaðist til Sameinuðu arabísku furstadæmanna til að stunda rannsóknir vegna doktorsritgerðar sinnar um afleiðingar arabíska vorsins svokallaða. Hann hafi verið með ýmis skjöl í fórum sínum þegar hann var handtekinn. Hann hafði varið tíma í landinu á árum áður þegar hann var yngri og hafði jafnvel unnið þar í nokkur ár.

Samkvæmt samantekt BBC starfaði Hedges hjá ráðgjafafyrirtæki varðandi net-njósnir í Bretlandi og sem greinandi hjá öðru ráðgjafafyrirtæki og var hann sérhæfður í málefnum Mið-Austurlanda. Þrátt fyrir að hann hafi verið náðaður staðhæfa yfirvöld Sameinuðu arabísku furstadæmanna að Hedges sé njósnari.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×