Erlent

Soltinn hundur át eigin fót til að lifa af

Samúel Karl Ólason skrifar
Hinn sex ára gamli Luke.
Hinn sex ára gamli Luke. Noah's Arks Rescue
Eigendur hundsins Luke gáfu honum hvorki mat né vatn til svo langs tíma að hann át eigin fót til að lifa af. Luke er af tegundinni Stóri-Dani og var í eigu pars í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum. Dýraathvarfið sem annast Luke, sem er sex ára, eftir að lögreglan tók hann frá eigendum hans segir hann vera í mikilli lífshættu vegna sýkingar og öndunar- og meltingarkvilla.

Samkvæmt Sky News höfðu eigendur Luke bundið hann við staur og var hvergi mat né vatn að finna. Eigendurnir gátu ekki sagt lögregluþjónum hve lengi hann hafði verið bundinn við staurinn, né hvernig hann hafði misst fótinn.

Þau Jessica James og Skylar Craft hafa verið ákærð fyrir að misþyrma dýri.

Athvarfið Noah‘s Arks Rescue sagði frá björgun Luke á mánudaginn og var hann sendur í aðgerð. Til stóð að taka fótinn af honum en það reyndist ekki hægt vegna þess hve slæmu ásigkomulagi hann er í. Við meðhöndlun skánaði ásigkomulag hans eitthvað en athvarfið segir það hafa versnað verulega í gærkvöldi.



Þær sýkingar sem Luke er með hafa tekið yfirhöndina. Þar að auki hafði hann verið sveltur svo mikið að líkami hans á nú erfitt með að melta mat.

Áður en hægt er að senda Luke í aðgerð þarf að reyna að ná stjórn á sýkingunum en forsvarsmenn athvarfsins eru ekki vongóðir um að það sé hægt. Slíkt muni taka nokkra daga og ekki sé víst að Luka lifi þá daga af.

Hins vegar verði allt reynt til að halda lífi í Luke og hafa sérfræðingar verið fengnir til að annast hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×