Erlent

Dómur yfir erkibiskupnum felldur niður

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Philip Wilson var sakfelldur í maí fyrir að hylma yfir kynferðisbrot innan kaþólsku kirkjunnar í Ástralíu. Tólf mánaða fangelsisdómur yfir honum var svo kveðinn upp í júlí síðastliðnum.
Philip Wilson var sakfelldur í maí fyrir að hylma yfir kynferðisbrot innan kaþólsku kirkjunnar í Ástralíu. Tólf mánaða fangelsisdómur yfir honum var svo kveðinn upp í júlí síðastliðnum. Vísir/Afp
Dómur yfir fyrrverandi erkibiskup innan kaþólsku kirkjunnar í Ástralíu hefur verið felldur niður. Erkibiskupinn, Philip Wilson, hlaut fyrr á þessu ári 12 mánaða fangelsisdóm fyrir að hylma yfir kynferðisbrot innan kirkjunnar á áttunda áratug síðustu aldar.

Hann áfrýjaði dómnum og komst æðra dómsstig að þeirra niðurstöðu í gær að ekki hafi verið sýnt fram á sekt erkibiskupsins með óyggjandi hætti á fyrri stigum málsins.

Með dómnum varð Wilson, sem er 68 ára gamall, hæst setti embættismaður innan gjörvallrar kaþólsku kirkjunnar sem fundinn hafði verið sekur um brot af þessu tagi.

Sjá einnig: Erkibiskup í 12 mánaða fangelsi

Wilson hélt ætíð sakleysi sínu fram og sagðist ekkert hafa vitað um brot presins James Patrick Fletcher á áttunda áratugnum. Fletcher var dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn níu börnum og lést innan fangelsisveggja árið 2006.

Lögmaður erkibiskupsins náði að sannfæra dómarann, sem hafði áfrýjunarmál hans til meðferðar, um að ekki væri fullsannað að Wilson hafi vísvitandi trassað það að tilkynna brot prestsins til lögreglunnar. Hann hafi ekki getað verið viss um það að ásakanirnar um kynferðisbrot væru á rökum reistar og því ekki óeðlilegt, að mati dómarans, að hann hafi beðið með að greina frá þeim.

Við aðalmeðferð málsins í maí var Wilson sagður hafa þagað um ásakanirnar til þess að vernda orðspor kirkjunnar. Þá var Wilson sakaður um að hafa ekki i sýnt neina iðrun við aðalmeðferðina. Wilson sagði erkibiskupsstöðu sinni í áströlsku borginni Adelaide lausri eftir dómsuppkvaðninguna í júlí og hefur verið í stofufangelsi síðan.


Tengdar fréttir

Erkibiskup fundinn sekur um hylmingu

Dómstóll í Ástralíu telur sannað að kaþólskur erkibiskup hafi reynt að hylma yfir barnaníð innan kirkjunnar á áttunda áratug síðustu aldar.

Erkibiskup í 12 mánaða fangelsi

Kaþólskur erkibiskup í Ástralíu hefur verið dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir að hylma yfir kynferðisbrot innan kirkjunnar á áttunda áratug síðustu aldar.

Erkibiskupinn segir af sér

Frans páfi hefur fallist á afsagnarbeiðni ástralska erkibiskupsins Philips Wilson sem var dæmdur fyrir að hafa vísvitandi haldið barnaníði leyndu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×