Fótbolti

Carlos Tevez: Þetta er vandræðalegt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez.
Carlos Tevez. Vísir/Getty
Carlos Tevez, framherji argentínska félagsins Boca Juniors, þekkir það vel að spila stóra leiki á stærstu fótboltaleikvöngum Evrópu en honum finnst það mjög skrýtið að úrslitaleikur Copa Libertadores, Suðurameríkukeppni félagsliða, þurfi að fara fram í Evrópu.

Seinni úrslitaleikur Boca Juniors og River Plate fer fram á sunnudaginn á Santiago Bernabéu, heimavelli Evrópumeistara Real Madrid. Ástæðan er árás öfgastuðningsmanna River Plate á liðsrútu Boca Juniors.

Bæði liðin koma frá Buenos Aires í Argentínu og er þetta í fyrsta sinn sem þessi heimsfrægu félög mætast í úrslitaleik Copa Libertadores sem er samskonar keppni og Meistaradeildin í Evrópu.





Carlos Tevez átti frábæran feril í Evrópu þar sem hann lék meðal annars með Manchester United, Manchester City og Juventus. Hann fór heim til Boca Juniors árið 2015 og hefur spilað þar síðan fyrir utan eitt stutt Kínaævintýri árið 2017.

„Það er frekar skrýtið að spila hérna í Madrid en vitum af hverju leikurinn fer fram hér. Þetta er vissulega vandræðalegt fyrir argentínsku þjóðina en ekki eins vandræðalegt fyrir okkur leikmennina. Þeir tóku samt af okku drauminn um að spila úrslitaleikinn í okkar landi,“ sagði Carlos Tevez.

Fyrri leikurinn endaði með 2-2 jafntefli á heimavelli Boca Juniors og það lið sem vinnur leikinn á Santiago Bernabéu á sunnudaginn verður því meistari.

„Það er mikilvægt að átta sig á því að þetta er ennþá úrslitaleikur. Þetta er óvenjulegt af því að hann er spilaður hér en við erum samt að spila til úrslita um Copa Libertadores,“ sagð Tevez.

Carlos Tevez vann Copa Libertadores bikarinn með Boca Juniors þegar hann var aðeins 19 ára gamall (2003). Boca Juniors hefur unnið hann einu sinni síðan (2007) en River Plate vann hann síðast árið 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×