Enski boltinn

Upphitun: Meistarabölvun á Brúnni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Manchester City freistar þess að brjóta „meistarabölvunina,“ og fara með sigur af Stamford Bridge í stórleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Ríkjandi Englandsmeistarar hafa ekki unnið Chelsea á heimavelli þeirra bláklæddu Stamford Bridge síðan Manchester United vann 3-0 sigur í apríl 2002.

Pep Guardiola og hans menn hafa hins vegar ekki tapað leik í úrvalsdeildinni á tímabilinu og aðeins tapað stigum í tveimur leikjum. Þeir mæta til Lundúna í síðdegisleik dagsins en helstu keppinautar City um toppsætið, Liverpool, byrjar daginn í Bournemouth í hádeginu.

Bournemouth náði loksins að vinna í vikunni eftir tapleikjahrinu og er jafnt Manchester United og Everton að stigum um miðja deild.

United á leik klukkan 15:00 gegn nýliðum Fulham sem sitja á botni deildarinnar. Fyrirfram ættu það að vera auðveld stig á töfluna fyrir Jose Mourinho og rauðu djöflana.

Jóhann Berg Guðmundsson og Aron Einar Gunnarsson verða báðir í eldlínunni á sama tíma, Burnley mætir Brighton og Cardiff fær Southampton í heimsókn.

Deginum lýkur á kvöldleik Leicester og Tottenham í Leicester. Tottenham er í þriðja sætinu, átta stigum á eftir City á toppnum en í harðri baráttu við Chelsea og Arsenal um sæti í topp fjórum.

Leikir dagsins:

12:30 Bournemouth - Liverpool, beint á Stöð 2 Sport

15:00 Arsenal - Huddersfield

15:00 Burnley - Brighton

15:00 Cardiff - Southampton

15:00 Manchester United - Fulham, beint á Stöð 2 Sport

15:00 West Ham - Crystal Palace

17:30 Chelsea - Manchester City, beint á Stöð 2 Sport

19:45 Leicester - Tottenham, beint á Stöð 2 Sport




Fleiri fréttir

Sjá meira


×