Innlent

Segir Ólaf og Karl Gauta hafa átt frumkvæðið að fundinum á Klaustri

Kristín Ólafsdóttir og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, fyrrverandi þingmenn Flokks fólksins.
Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, fyrrverandi þingmenn Flokks fólksins. Vísir/Fþh
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, upplýsti í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld að Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason, fyrrverandi samflokksmenn hennar, hafi átt frumkvæði að fundinum örlagaríka á Klaustur bar þann 20. nóvember síðastliðinn. Tilefni fundarins hafi verið áhugi tvímenninganna á að ganga til liðs við Miðflokkinn. Ólafur þvertekur fyrir að hann og Karl Gauti hafi óskað eftir fundinum.

Þetta hafði Inga eftir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og sagði hann hafa látið orðin falla á fundi formanna flokkanna í dag.

Ólafur Ísleifsson, sem rekinn var úr Flokki fólksins í kjölfar Klaustursmálsins og situr nú á þingi sem óháður þingmaður, hafnar því í samtali við Vísi að frumkvæðið hafi verið sín megin.

„Hvorki ég né Gauti áttum frumkvæðið að þessum fundi.“

Stjórn Flokks fólksins samþykkti í síðustu viku að reka Ólaf og Karl Gauta úr flokknum vegna aðkomu þeirra að fundinum á Klaustri. Þá tjáði Inga fréttastofu í kvöld að hún hefði rekið Ólaf úr þingnefndunum sem hann á sæti í, Fjárlaganefnd og Íslandsdeild Norðurlandaráðs.

Á meðal þess sem fram kom á Klaustursupptökunum voru umræður um að Ólafur og Karl Gauti myndu mögulega ganga í Miðflokkinn. Þeir hafa báðir haldið því fram síðan að ekkert slíkt hafi staðið til.

Ekki náðist í Sigmund Davíð Gunnlaugsson við vinnslu þessarar fréttar. 

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×