Enski boltinn

Rodriguez stal stigi fyrir West Brom

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Leikmenn West Brom fagna marki Rodriguez
Leikmenn West Brom fagna marki Rodriguez vísir/getty
Jay Rodriguez tryggði West Bromwich Albion stig á móti Aston Villa á heimavelli í ensku B-deildinni í fótbolta í kvöld með umdeildu marki.

Aston Villa er á góðu flugi í deildinni og náði í 13 stig, það eru fjórir sigrar og eitt jafntefli, úr síðustu fimm leikjum sínum. Sigur í kvöld hefði komið þeim upp í sjötta sætið, síðasta umspilssætið um úrvalsdeildarsæti í lok tímabils, en jafntefli þýðir að Villa er áfram í áttunda sætinu, tveimur stigum frá umspilssætinu.

Villa hafði verið með forystuna frá 60. mínútu og stefndi í fimmta sigurinn í sex leikjum þegar Rodriguez skoraði jöfnunarmarkið fyrir West Brom í uppbótartíma.

Rodriguez skallaði boltann inn á nærstönginni en knötturinn virtist hafa átt viðkomu í hendi Rodriguez áður en hann fór inn. Dómararnir ræddu málið sín á milli og komust að þeirri niðurstöðu að markið væri gilt.

Leikmenn Villa geta þó sjálfum sér um kennt að hafa ekki nýtt færin sem þeir fengu í seinni hálfleik til þess að gera út um leikinn.

Anwar El Ghazi kom Villa yfir í upphafi leiks þegar hann fékk tíma og pláss til þess að skjóta boltanum í átt að marki. Boltinn hafði viðkomu í tveimur varnarmönnum West Brom áður en hann hafnaði í markinu og verður að öllum líkindum skráð sem sjálfsmark.

Heimamenn í West Brom náðu að jafna fyrir hálfleikinn með marki frá Dwight Gayle og var staðan 1-1 í hálfleik.

El Ghazi kom Villa aftur yfir og í þetta skipti var enginn vafi um hver átti markið. Frábært skot fyrir utan teig sem El Ghazi smurði í hornið.

Tammy Abraham átti tvö mjög góð færi stuttu seinna og Villa vildi fá vítaspyrnu þegar hann fór niður í teignum á 80. mínútu en fengu ekki.

Niðurstaðan 2-2 jafntefli sem leikmenn og stuðningsmenn Villa sjá þó líklega frekar sem tap.

Birkir Bjarnason var ekki í leikmannahóp Villa því hann er enn að ná sér af nárameiðslum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×