Innlent

Lögregla skakkaði leikinn í hópslagsmálum í sumarhúsabyggð

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglan á Austurlandi stóð í ströngu í nótt.
Lögreglan á Austurlandi stóð í ströngu í nótt. Vísir/Vilhelm
Sjö lögreglumenn voru kallaðir út til að stöðva hópslagsmál í sumarhúsabyggð á Einarsstöðum nærri Egilsstöðum í nótt. Um tuttugu til þrjátíu manns voru á staðnum en tveir voru handteknir og látnir gista fangageymslu þegar þeir veittust að lögreglumönnunum.

Ríkisútvarpið greinir frá því að tilkynning um slagsmálin hafi borist lögreglunni á Austurlandi þegar klukkuna vantaði tuttugu mínútur í fjögur í nótt. Fjórir lögreglumenn sem voru á vakt fóru strax á staðinn og þrír sem voru á bakvakt voru einnig kallaðir út.

Haft er eftir Hjalta Bergmari Axelssyni, aðalvarðstjóra, að ósætti hafi brotist út á milli tveggja hópa sem voru hvor í sínum bústaðnum. Rifrildið hafi endað með slagsmálum einhverra úr hópnum. Veist hafi verið að lögreglumönnum þegar þeir reyndu að skakka leikinn.

Annar þeirra sem var handtekinn er grunaður um líkamsárás og brot gegn valdstjórninni en hinn um tálmun í handtöku auk brots gegn valdstjórninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×