Innlent

Bílastæði sem merkt voru sem einkastæði í hálfa öld eign borgarinnar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í vikunni.
Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í vikunni. vísir/hanna
Eigendur íbúðarhúsnæðis við Bergstaðastræti í Reykjavík hafa tapað máli gegn Reykjavíkurborg vegna bílastæða við húsið. Bílastæðin höfðu verið merkt sem einkastæði í um hálfa öld en eru samkvæmt niðurstöðu Héraðsdóms í eigu borgarinnar.

Vildu eigendurnir meina að bílastæðin tilheyrðu húsinu og gerðu þau kröfum að landspildan sem bílastæðin standa á væru eign þeirra. Til vara varð gerð krafa um að eigendurnir ættu afnotarétt af bílastæðunum í ljósi hefðar, þar sem skiltum þar sem á stóð að stæðin væru einkastæði hefðu verið sett upp árið 1966 og staðið athugasemdalaust til 2017, er borgin lét taka þau niður.

Þá töldu eigendurnir einnig að stæðin hafi verið gerð fyrir eigendur hússins, jafnvel þó að borgin hafi borið kostnað af þeim. Vildu þau einnig meina að landspildan sem bílastæðin standa á hafi alltaf verið hluti lóðar húsnæðisins.

Þessu mótmælti Reykjavíkurborg og sagði engin gögn finnast um að stæðin hafi verið gerð fyrir eigendur hússins. Þá vísaði borgin einnig til þess að starfsmönnum hennar hafi ekki verið kunnugt um skiltin fyrr en um árið 2008. Bílastæðin séu á svæði sem sé utan gjaldskyldu og því ekki sérstakt eftirlit með þeim.

Eftir að borginni varð hins vegar kunnugt um tilvist merkinganna voru þær fjarlægðar, enda hafi þær aldrei verið settar upp með samþykki borgarinnar.

Héraðsdómur hafnaði öllum kröfum eiganda hússins en í dóminum kemur meðal annars fram að það þurfi meira til en að setja upp skilti sem á stendur einkastæði til þess að hægt sé að krefjast hefðarhalds á almannarými. Flokkast bílastæðin því til eignar Reykjavíkurborgar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×