Handbolti

Gunnar Steinn heldur áfram að spila vel | Ljónin í þriðja sætið

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gunnar er að gera tilkall í landsliðshópinn fyrir HM í janúar.
Gunnar er að gera tilkall í landsliðshópinn fyrir HM í janúar. vísir/getty
Rhein-Neckar Löwen er komið upp í þriðja sæti þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta eftir sigur á Göppingen á útivelli í kvöld, 28-25. Staðan í hálfleik var 15-12, Löwen í vil.

Guðjón Valur fékk verðskuldaða hvíld í kvöld en arftaki hans í vinstra horninu, Svíinn Jerry Tollbring, greip heldur betur tækifærið og skorað tíu mörk - þar af fjögur mörk af vítalínunni.

Alexander Petersson skoraði tvö mörk en Löwen er eins og áður segir í þriðja sætinu með 27 stig eftir sextán leiki. Á toppnum er Flensburg með 32 stig eftir jafn marga leiki en Kiel er í öðru sætinu með 30 stig eftir sautján leiki.

Gunnar Steinn Jónsson heldur áfram að spila vel með Ribe-Esbjerg í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta en hann lék vel í þriggja marka sigri Ribe í Íslendingaslag gegn TTH Holstebro, 28-25.

Staðan var jöfn í hálfleik, 14-14, en í síðari hálfleik voru heimamenn í Esbjerg sterkari. Eftir sigurinn eru þeir komnir með tólf stig í níunda sætið en TTH er í fjórða sæti deildarinnar með 21 stig.

Gunnar Steinn skoraði fjögur mörk úr sex skotum en Rúnar Kárason var í leikmannahóp Ribe. Hann tók þó ekki þátt í leiknum en hann hefur verið að glíma við meiðsli. Vignir Svavarsson skoraði þrjú mörk úr sex skotum fyrir TTH.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×