Fótbolti

Lærisveinum Gerrard mistókst að halda í við Celtic

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Steven Gerrard
Steven Gerrard vísir/getty
Lærisveinar Steven Gerrard í Glasgow Rangers fóru illa að ráði sínu í skosku úrvalsdeildinni í dag þegar liðið sótti Dundee heim. Rangers var fyrir leikinn þremur stigum á eftir erkifjendum sínum í Celtic og hefði þar með getað jafnað Celtic að stigum en lærisveinar Brendan Rodgers hafa þó leikið einum leik minna en Rangers.

Gamla brýnið Kenny Miller, fyrrum leikmaður Rangers, kom Dundee yfir snemma leiks en á 19.mínútu fékk einn liðsmanna Dundee að líta beint rautt spjald.

Hagur Rangers vænkaðist enn frekar nokkrum andartökum síðar þegar Andrew Halliday jafnaði metin á 21.mínútu.

Einum fleiri í 70 mínútur tókst lærisveinum Gerrard hins vegar ekki að kreista fram sigur og lauk leiknum með 1-1 jafntefli.

Celtic hefur því tveggja stiga forystu á toppi deildarinnar auk þess að eiga einn leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×