Körfubolti

Arnar vildi ekki ræða atvikið ótrúlega í leikslok

Ástrós Ýr Eggertsdóttir í Mathús Garðabæjarhöllinni skrifar
Arnar á hliðarlínunni
Arnar á hliðarlínunni vísir/bára
Arnar Guðjónsson vildi ekki ræða atvikið þegar hann strunsaði inn á völlinn í miðjum leik Stjörnunnar og KR í Domino‘s deild karla í kvöld.

Í viðtali á Stöð 2 Sport í leikslok var fyrsta spurning til Arnars um þetta ótrúlega atvik sem hefur vart sést í manna minnum.

„Ég legg ekki í vana minn að ræða dómgæslu við fjölmiðla og ætla ekki að byrja á því í dag,“ svaraði Arnar. Inntur eftir frekari svörum um hvað hann hafi verið að hugsa, ekki út í dóminn, bugaðist Arnar ekki og vildi ekkert tjá sig. Hann fékk tæknivillu fyrir atvikið.

Stjarnan vann leikinn 95-84 eftir að hafa verið með 15 stiga forystu í hálfleik og munurinn varð mestur um tuttugu stig.

„Mér fannst varnarleikurinn ekki góður í dag,“ sagði Arnar. „Skelfilegur fyrsti leikhluti en kafli í öðrum leikhluta sem var góður. KR átti ekki góðan skotdag en þeir fengu fullt af góðum skotum. Við vorum í tómu basli og þurftum að fara í svæðisvörn.“

„Við skjótum mjög vel og það ræður oft öllu í körfubolta.“

„Framlag frá öllum í dag og það gerir gæfumuninn.“

Stjarnan batt enda á þriggja leikja tapgöngu með sigrinum en Arnar vildi þó ekki gefa of mikið út á mikilvægi sigursins.

„Þú mátt ekki fara of hátt og þú mátt ekki fara of lágt. Við höfum náð að halda ákveðnu jafnvægi með þessum sigri en nú þurfum við bara að halda áfram,“ sagði Arnar Guðjónsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×