Enski boltinn

Sjóðheitur Gylfi spenntur fyrir borgarslagnum gegn Liverpool

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór skoraði eina markið á móti Aroni Einari og félögum.
Gylfi Þór skoraði eina markið á móti Aroni Einari og félögum. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Everton í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta, og félagar hans eiga stórleik um helgina en þeir mæta Liverpool í borgarslag á sunnudaginn.

Everton er á fínum skriði þessa dagana en liðið er búið að finna fimm af síðustu sjö leikjum sínum þar sem Gylfi hefur verið sjóðheitur. Hann er í heildina búinn að koma með beinum hætti að átta mörkum á tímabilinu (sex mörk og tvær stoðsendingar).

Gylfi er enn fremur búinn að skapa 32 marktækifæri fyrir liðsfélaga sína en hann er á meðal þeirra bestu í deildinni þegar kemur að þeim tölfræðiþætti. Aðeins stórstjörnurnar Eden Hazard og Willian hjá Chelsea og David Silva hjá Manchester City skáka íslenska landsliðsmanninum þar.

„Allir strákarnir eru búnir að bíða eftir borgarslagnum frá upphafi leiktíðar. Spennan hefur bara orðið meiri eftir því sem við fórum að spila betur síðustu mánuði,“ segir Gylfi í viðtali við heimasíðu Everton.

„Við getum byggt á frammistöðunni gegn Chelsea. Við náðum góðum úrslitum þar og fylgdum því eftir með sigri á móti Cardiff,“ segir Gylfi sem skoraði eina markið í 1-0 sigri í Íslendingaslagnum.

Liverpool er ekki mikið að fá á sig mörk en liðið er aðeins búið að hirða boltann úr netinu fimm sinnum í fyrstu þrettán leikjum tímabilsins.

Gylfi, aftur á móti, hefur oft spilað vel á Anfield en hann á að baki fjögur mörk á móti Liverpool á útivelli, þar á meðal sigurmörk fyrir Reading og Swansea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×