Erlent

Lifðu af 84 hæða frjálst fall í lyftu í háhýsi í Chicago

Birgir Olgeirsson skrifar
Háhýsið í Chicago sem um ræðir.
Háhýsið í Chicago sem um ræðir. Vísir/Getty
Hópur fólks sem festist í lyftu lifði af 84 hæða fall í turni í Chicago í Bandaríkjunum á föstudaginn. Um var að ræða sex manna hóp en þeirra á meðal var kona sem er barnshafandi Lyftan féll frá 95. hæð niður á elleftu hæð í háhýsi sem eitt sinn var kennt við John Hancock.

Þegar lyftan nam staðar á elleftu hæð sendi fólkið vinum sínum skilaboð sem höfðu í framhaldinu samband við viðbragðsaðila. Var fólkinu bjargað þremur tímum eftir að hafa orðið fast í lyftunni. Samkvæmt frétt BBC af málinu slitnaði einn af vírunum sem á að halda lyftunni uppi.

Hópurinn hafði verið á veitingahúsi á 95. hæð þar sem er glæsilegt útsýni yfir vindasömu borgina. Hópurinn var á leiðinni aftur niður í anddyri háhýsisins á jarðhæðinni. 

Jaime Montemayor var í lyftunni ásamt eiginkonu sinni. Hann sagði við fjölmiðla að lyftan hefði hegðað sér eðlilega í fyrstu en síðan farið í frjálst fall. Lyftan hefði gefið frá sér skringilegt hljóð, eins og eitthvað hefði brostið, og lyftan fyllst af ryki. Þeir sem voru í lyftunni hafði ýmist hrópa, beðið til guðs eða grátið.

Slökkviliðsmenn mættu á vettvang til að bjarga fólkinu úr lyftunni en þeir þurftu að brjóta sér leið í gegnum vegg á elleftu hæðinni til að komast til fólksins.

Ekki er vitað hvers vegna lyftan nam staðar á elleftu hæð í stað þess að falla alla leið til jarðar. Slökkviliðsmenn hafa hins vegar bent á að þó að tveir vírar hafi gefið sig þá voru nokkrir eftir sem enn héldu í lyftuna.

Lyftan stóðst skoðun í júlí síðastliðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×