Viðskipti innlent

Óttast krónuskort í bankakerfinu

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Stefán Broddi Guðjónsson, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka
Stefán Broddi Guðjónsson, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka
Lausafjáreignir stóru viðskiptabankanna þriggja í krónum drógust saman um 24 prósent eða um 86 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins, samkvæmt hagtölum Seðlabanka Íslands. Forstöðumaður greiningardeildar Arion banka segir margt benda til þess að eftirspurn eftir lánsfé sé orðin eða muni brátt verða mun meiri en framboðið.

„Ég óttast að við gætum siglt inn í peningalegt aðhald sem er mun meira en stýrivextir Seðlabankans einir og sér gefa til kynna. Að við sköpum hér ástand þar sem myndast skortur á krónum sem dregur úr fjárfestingum og kælir hagkerfið mun meira en ástæða er til,“ segir forstöðumaðurinn, Stefán Broddi Guðjónsson, í samtali við Markaðinn.

Lausafjárstaða bankanna – Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans – er mun sterkari í erlendum gjaldmiðlum en krónum. Lausafjárhlutfallið í krónum var 87 prósent í lok septembermánaðar, borið saman við 110 prósent í lok síðasta árs, og tala sumir viðmælendur Markaðarins um að krónuskortur hrjái bankakerfið. Í einstaka bönkum sé orðið auðveldara fyrir fyrirtæki að fá lán í erlendri mynt en krónum.

Lausafjárstaða bankanna í heild – bæði erlendum gjaldmiðlum og krónum – er þó enn nokkuð rúm en til marks um það var lausafjárhlutfall þeirra 154 prósent í lok september. Reglubundið lágmark er til samanburðar 100 prósent.

Stefán Broddi útskýrir að vaxtageta bankanna takmarkist af eigin- og lausafjárhlutfalli þeirra sem sé með því hæsta í Evrópu. Eiginfjárhlutfall bankanna sé nú lítið hærraen 22 prósenta eiginfjárkrafa þeirra og þá vilji bankarnir líklega ekki að lausafjárhlutfall þeirra í krónum verði mikið lægra.

„Af þessu leiðir að mér finnst ótrúlegt að útlán bankanna í krónum vaxi stórum skrefum og ekki nema í takti við það sem hagnaður og þar með eiginfjáraukning bankanna leyfir,“ segir hann.

Ekki bæti óróleikinn í efnahagslífinu úr skák. Verðbólga sé tekin að stíga og Seðlabankinn byrjaður að hækka skammtímavexti.

„Þar með leitar sparnaður gjarnan í skammtímainnstæður, sem iðulega þarf að binda á innlánsreikningum í Seðlabankanum, á meðan lántakar vilja fremur taka krónur að láni til langs tíma. Þar með hækka langtíma útlánsvextir og færri ákveða að fjárfesta eða í það minnsta dregur úr hvata til að fjárfesta. En til þess er leikurinn gerður. Þannig dregur úr eftirspurn í hagkerfinu, það kólnar og verðbólga hjaðnar,“ segir Stefán Broddi.

Minni þörf á stýrivaxtahækkun

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir þróunina áhugaverða en ekki að öllu leyti óvænta. Ekki sé ástæða til þess að hafa miklar áhyggjur af henni enn sem komið er.

„Lausafjárstaðan er vissulega ekki eins rúm og hún hefur verið,“ nefnir hann og bætir við: „En hafa verður í huga að árin frá hruni hafa einkennst af mjög rúmri lausafjárstöðu í kerfinu sem endurspeglast til dæmis í því að virkir stýrivextir hafa allt þetta tímabil og fram á þennan dag verið nálægt lægri enda vaxtagangsins,“ segir Jón Bjarki. Enn sé töluvert svigrúm í kerfinu.

„Við erum jafnframt á vendipunkti í efnahagsþróun þar sem það fer ekki illa á því að það hægi á útlánavexti. Hann hefur sem betur fer ekki farið úr böndunum en það hefur bætt í hann framan af þessu ári. Í því ljósi er tilfærsla virku skammtímavaxtanna, sem verður þá upp á við vegna þess að lausafjárstaðan í kerfinu í heild er ekki eins rúm og áður, eins konar ígildi aukins peningalegs aðhalds,“ segir Jón Bjarki.

Að því leyti sem þessi þróun auki peningalegt aðhald geti þörfin á beinni stýrivaxtahækkun enn fremur minnkað.

X

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka

Margt stuðlar að hærri vöxtum

Stefán Broddi segir góðu fréttirnar þær að „við höfum uppi í erminni fjölda spila“ til þess að koma í veg fyrir að skortur verði á krónum. Alls konar séríslenskar aðstæður haldi langtímavöxtum háum.

„Líklega vegur þyngst raunávöxtunarviðmið lífeyrissjóðanna og áhrif þess á vexti á skuldabréfamarkaði,“ nefnir hann.

Miklar fjárfestingar lífeyrissjóðanna erlendis á sama tíma og höft séu á fjárfestingar útlendinga í íslenskum skuldabréfum hafi auk þess skapað mikið ójafnvægi sem stuðli að hærri vöxtum en ella.

„Ég held að fjármálastöðugleika verði ekki ógnað þó að útlendingar fái haftalaust að fjárfesta í langtímaskuldum íslenskra fyrirtækja í krónum. Á móti eykst vonandi skilvirkni fjármagnsmarkaðarins sem er að mínu viti eitt mikilvægasta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir til þess að tryggja heilbrigt vaxtastig,“ segir Stefán Broddi.

Einnig megi nefna bankaskattinn sem hækki vaxtastig í landinu.

Stefán Broddi segir auk þess að þær háu eiginfjárkröfur sem gerðar séu til bankanna geri þá vissulega öruggari en um leið minnki þær útlánagetu bankanna og stuðli að hærri vöxtum.

„Í eðli krafnanna felst að þær eiga að herðast þegar aðstæður krefjast en rýmka þegar aðstæður leyfa. Næst munu þær herðast í vor en ég hugsa þó að gangurinn í hagkerfinu í vor verði frekar þannig að kröfurnar ættu að rýmkast þannig að útlánageta bankanna geti stutt við hagkerfið en ekki dregið kraft úr því,“ segir hann.

Þá bendir Stefán Broddi á að sértryggð skuldabréf bankanna með veði í íbúðarhúsnæði séu ekki enn metin veðhæf hjá Seðlabankanum í endurhverfum viðskiptum við bankana.

„Mér finnst nokkuð borðleggjandi að bankinn muni næst ákveða að gera þau veðhæf. Það væri ágæt leið til að fjölga krónum í kerfinu og vonandi lækka fjármagnskostnað á húsnæðismarkaði. Ég held það muni ekki veita af nú þegar verulegt magn nýs íbúðarhúsnæðis er loks í byggingu og á teikniborðinu,“ segir Stefán Broddi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×