Erlent

Dómari í siðanefnd FIFA handtekinn vegna spillingar

Kjartan Kjartansson skrifar
Bandarískir saksóknarar afhjúpuðu grasserandi spillingu innan FIFA. Spilling virðist enn eiga sér stað innan vébanda þess.
Bandarískir saksóknarar afhjúpuðu grasserandi spillingu innan FIFA. Spilling virðist enn eiga sér stað innan vébanda þess. Vísir/Getty
Malasískur fulltrúi í siðanefnd Alþjóðaknattspyrnusambandsins (FIFA) var handtekinn vegna gruns um spillingu þegar hann kom heim eftir fundi á vegum sambandsins í Sviss. Hann er sakaður um að hafa þegið og nýtt sér stöðu sína til að fá fjárhagslega greiða.

Sundra Rajoo tók sæti í siðanefnd FIFA sem annar varaformanna hennar og var tilnefndur af Knattspyrnusambands Asíu. Það gerðist eftir að Gianni Infantino, forseti FIFA, stóð fyrir hreinsunum á stjórn nefndarinnar, að sögn AP-fréttastofunnar.

Hjá siðanefndinni hefur Rajoo tekið þátt í að banna fjölda knattspyrnufulltrúa sem hafa tekið þátt í víðtækum mútugreiðslum innan vébanda FIFA fyrir lífstíð.

Dómstóll í Malasíu hafnaði kröfu saksóknara um gæsluvarðhald yfir honum og var Rajoo sleppt í kjölfarið. Lögmaður hans segir að dómari hafi fallist á rök um að Rajoo nyti friðhelgi sem dipómati og því væri ekki hægt að handtaka hann eða halda. Rajoo sagði af sér embætti hjá Alþjóðlegu gerðardómsmiðstöð Asíu eftir að hann var handtekinn.

Rannsókn og ákærur bandaríska dómsmálaráðuneytisins á hendur háttsettra fulltrúa FIFA hafa skekið alþjóðsambandið undanfarin ár. Hún svipti hulunni af umfangsmiklum og langvarandi mútugreiðslum og spillingu innan sambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×