Handbolti

Púlsinn fór upp úr öllu valdi þegar ég sá að Þórir var að hringja

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Hergeirsson og Henny Ella Reistad.
Þórir Hergeirsson og Henny Ella Reistad. Mynd/Samsett/Getty og @NORhandball
Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta, valdi unga og bráðefnilega handboltakonu í EM-hópinn sinn. EM í Frakklandi hefst eftir eina viku.

Henny Reistad er 19 ára gömul og spilar með Vipers Kristiansand. Hún er vinstri handa skytta eða leikstjórnandi og er 180 sentímetrar á hæð.

Henny Reistad sló í gegn á EM unglinga 2017 og HM unglinga 2018 þar sem hún var í úrvalsliðinu á báðum mótum. Norska liðið varð í öðru sæti á HM unglinga fyrr á þessu ári. Henny var líka valinn nýliði ársins í norsku deildinni á síðasta tímabili.

Henny Ella Reistad verður ein af yngsti leikmönnunum sem Þórir hefur farið með á stórmót. Hún er fjórum árum yngri en sú næstelsta í hópnum.

„Púlsinn hjá mér fór upp úr öllu valdi þegar ég sá að Þórir var að hringja,“ sagði Henny Reistad við Dagbladet en hún varð að halda þessu leyndu í nokkra daga þar til að norska handboltasambandið gaf þetta formlega út.

Henny Reistad mun spila með átrúnaðargoðinu sínu á EM því fyrir í liðinu er hin 34 ára gamla Linn Jörum Sulland.  Sulland lék sinn fyrsta landsleik árið 2004, þegar Henny var fimm ára, og hefur skorað 546 mörk í 182 landsleikjum.





„Ég varð mikill aðdáendi hennar á EM 2010 þegar hún kom sterk inn af bekknum og stóð sig svo vel. Hún skoraði mikið af mörkum og var mjög skemmtilegur leikmaður,“ sagði Henny Reistad.

Henny Reistad fær væntanlega tækifæri í kvöld þegar Noregur mætir Ungverjalandi á Möbelringen-æfingamótinu. Það verður þá hennar fyrsti landsleikur.

EM fer fram í Frakklandi frá 29. nóvember til 16. desember. Norska landsliðið spilar í Brest og er í riðli með Rúmeníu, Þýskalandi og Tékklandi.

Þórir hefur þrisvar sinnum gert norska landsliðið að Evrópumeisturum þar á meðal á EM í Svíþjóð fyrir tveimur árum þegar liðið vann alla átta leiki sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×