Innlent

Mega ekki veita upplýsingar um vinveitt skip í vari

Birgir Olgeirsson skrifar
Skipið USNS Zeus í Breiðafirði.
Skipið USNS Zeus í Breiðafirði. Skessuhorn/Þröstur
Stórt skip lá í vari í Breiðafirði, skammt frá strönd Snæfellsnes, í vikunni. Fjallað var um skipið á vef Skessuhorns sem vakti athygli á því að skipið væri ómerkt og hvorki að finna á vef Marinetraffic eða Sitewatch.

Svör frá vaktstöð siglinga var á þá leið að um vinveitt skip væri að ræða en vaktstöðin mátti engar frekari upplýsingar veita.

Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir í samtali við Vísi að það sé lítið meira um málið segja, skipið sé vinveitt og hefur leyfi íslenskra stjórnvalda til að liggja í vari á þessum stað.

Spurður hver vegna ekki má veita upplýsingar um skipið sagðist Sveinn ekki ætla að tjá sig um það.

„Það er hérna með vitund og leyfi íslenskra stjórnvalda. Það er allt það sem við getum gefið upp,“ segir Sveinn.

Um er að ræða skipið USNS Zeus sem er á vegum bandaríska sjóhersins en það leggur neðansjávarkapla sem eru notaðir við kafbátaeftirlit og samskipti. Getur skipið lagt 1.600 kílómetra langan kapal á 2.700 metra dýpi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×