Handbolti

Rakel Dögg: Vildi óska þess að fleiri konur kæmu að þjálfun

Anton Ingi Leifsson skrifar
Rakel Dögg Bragadóttir fyrrum landsliðskona í handboltanum mun stjórna B-landsliði Íslands í tveimur vináttulandsleikjum gegn Færeyjum um helgina.

Ágúst Jóhannsdóttir er þjálfari færeyska kvennalandsliðsins en hann tók við því í sumar og verkefnið um helgina er því spennadni.

„Það er mjög skemmtilegt að við séum með íslenskan þjálfara hinu megin en fyrst og fremst er frábært fyrir þessar stelpur að fá að sýna sig í leikjum. Það er miklu meiri hvati og verðugt verkefni,“ sagði Rakel Dögg.

„Þetta er mjög gott milliskref. Það eru margar stelpur þarna sem voru í U20 í sumar og þá er áframhald á því. Þá eru kannski tvö til þrjú ár áður en þær detta inn í A-liðið þó maður viti aldrei.“

Í Olís-deild kvenna hér heima er einungis ein kona sem er aðalþjálfari og það er Hrafnhildur Skúladóttir hjá ÍBV. Af hverju fara konur ekki meira út í þjálfun?

„Þetta er mjög góð spurning og ég hef velt þessu fyrir mér. Ég hef í rauninni ekki neitt draumasvar. Það vantar kannski aðeins meiri hvata en þetta er skemmtilegt og ég finn mig vel í þjálfun.“

„Ég vildi alveg óska þess að það væru fleiri sem kæmu að því því ég held að konur gætu orðið virkilega góðir þjálfarar,“ sagði Rakel Dögg að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×