Handbolti

Stefán Rafn skaut PSG í kaf

Anton Ingi Leifsson skrifar
vísir/getty
Stefán Rafn Sigurmannsson var frábær er Pick Szeged vann eins marks sigur á PSG, 33-32, í Meistaradeild Evrópu í handbolta en leikið var í Ungverjalandi.

Szeged var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 16-14, en mikil dramatík var á lokamínútunum. Ungverjarnir höfðu þó betur en Stefán Rafn skoraði fjögur síðustu mörk Szeged.

Hafnfirðingurinn Stefán Rafn Sigurmannsson fór á kostum hjá Szged en hann skoraði ellefu mörk úr tólf skotum og var langmarkahæstur. Næsti maður var með fjögur mörk.

Í liði PSG var það Frakkinn Nedim Remili sem var markahæstur með átta mörk en næstir komu Norðmaðurinn Sander Sagosen og Daninn Henrik Toft Hansen með sex hvor.

Pick er nú með fimmtán stig í öðru sæti riðilsins, stigi á eftir PSG sem er á toppnum í riðlinum en Pick gerði jafntefli við Skjern í síðustu umferðinni.

Aron Pálmarsson átti einnig góðan leik fyrir Barcelona sem vann sex marka sigur á Kielce í B-riðli Meistaradeildarinnar í miklum markaleik en lokatölurnar urðu 42-36.

Börsungarnir voru þremur mörkum yfir í hálfleik og sigurinn í síðari hálfleik aldrei í hættu en mörkunum rigndi. Aron skoraði fimm mörk úr sex skotum en hann var þriðji markahæsti leikmaður liðsins.

Spánarmeistararnir í Barcelona eru áfram á toppi A-riðilsins riðilsins með sextán stig en Kielce er í öðru sætinum með tólf stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×