Körfubolti

Myndband af bílslysinu hans Steph Curry

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry.
Stephen Curry. Vísir/Getty
Það hefði vissulega getað farið verr á dögunum þegar ein stærsta stjarna NBA-deildarinnar í körfubolta lenti í bílslysi á leiðinni á æfingu hjá Golden State Warriors.

Stephen Curry slapp ómeiddur úr árekstrinum og nú er komið fram myndband sem sýnir hvernig slysið varð.

TMZ Sports komst yfir myndband af árekstrinum og þar sést vel að bíll keyrir fyrir bíl Curry. Curry fékk líka allan bíl aftan á sig. Það má sjá myndbandið hér fyrir neðan.

Aðstæður voru langt frá því að vera góðar enda mikil rigning og vegurinn blautur.

Stephen Curry hefur ekkert spilað síðustu vikur vegna nárameiðsla og það hefur ekki gengið neitt sérstaklega vel hjá Golden State Warriors liðinu í fjarveru hans.

Stephen Curry var með 29,5 stig, 6,1 stoðsendingu og 49 prósent þriggja stiga skotnýtingu í fyrsti tólf leikjum sínum á leiktíðinni. Warriors-liðið vann líka 10 af þessum 12 leikjum.

Golden State Warriors tilkynnti að Curry sé byrjaður að æfa og stefnan er að snúa aftur inn í liðið í fimm leikja útileikjaferð liðsins á næstunni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×