Handbolti

Tólfti sigur Arons, Kiel áfram í bikarnum og Vignir hafði betur gegn Arnari

Anton Ingi Leifsson skrifar
Aron í leik með Börsungum.
Aron í leik með Börsungum. vísir/getty
Barcelona vann sinn tólfta sigur í jafn mörgum leikjum í spænsku úrvalsdeildinni í handbolta er liðið vann sjö marka sigur á Granollers, 30-23.

Börsungar voru fimm mörkum yfir í hálfleik 14-9 og sigur meistaranna var aldrei í hættu. Þeir eru með níu stiga forskot á næsta lið og eiga titilinn vísann eins og svo oft áður á Spáni.

Aron Pálmarsson átti fínan leik fyrir Barcelona. Hann skoraði tvö mörk úr þremur skotum en markahæstur Börsunga voru Daninn Casper Mortensen og Spánverjinn Aleix Abelló með fimm mörk hvor.

Í Þýskalandi lenti Kiel ekki í miklum vandræðum með Melsungen í bikarnum. Kiel var ellefu mörkum yfir strax í hálfleik, 19-8, og eftirleikurinn auðveldur en munurinn að endingu varð tólf mörk, 31-19.

Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar eru því komnir í undanúrslit þýska bikarsins. Gísli Þorgeir Kristjánsson var í leikmannahóp Kiel og skoraði eitt mark.

Í Danmörku var Íslendingaslagur þar sem TTH Holstebro vann fjögurra marka sigur á SönderjyskE, 38-34, en Holstebro var sex mörkum yfir í hálfleik 24-18. Mikill markaleikur.

Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði þrjú mörk úr fimm skotum og gaf þrjár stoðsendingar en SönderjyskE er í fimmta sætinu. Vignir Svavarsson skoraði eitt mark fyrir Holstebro en þeir eru í þriðja sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×