Handbolti

Ómar Ingi frábær í Íslendingaslag

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ómar í leik með íslenska landsliðinu. Hann virðist funheitur sem eru góð tíðindi fyrir Ísland sem keppir á HM í janúar.
Ómar í leik með íslenska landsliðinu. Hann virðist funheitur sem eru góð tíðindi fyrir Ísland sem keppir á HM í janúar. vísir/ernir
Álaborg hafði betur gegn Kolding í slag Íslendingaliða í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Álaborg, með þá Janus Daða Smárason og Ómar Inga Magnússon innanborðs, styrkti stöðu sína á toppi deildarinnar með því að sækja fjögurra marka sigur til Kolding.

Ómar Ingi var næstmarkahæstur í liði Álaborgar með sex mörk og þess að auki átti hann heilar níu stoðsendingar á félaga sína. Ómar er stoðsendingahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar.

Janus Daði skoraði tvö mörk fyrir Álaborg. Í liði Kolding náði Ólafur Gústafsson ekki að koma sér á blað, átti eitt skot á markið og var rekinn út af í tvær mínútur.

Í norsku úrvalsdeildinni unnu Sigvaldi Guðjónsson og Þráinn Orri Jónsson stórsigur með Elverum þegar Haslum mætti í heimsókn.

Þráinn var með þrjú mörk úr þremur skotum í leiknum, Sigvaldi átti einnig þrjú skot en uppskar bara tvö mörk.

Elverum vann leikinn með fjórtán mörkum, 41-27 eftir að staðan var 19-14 í hálfleik.

Elverum er í öðru sæti úrvalsdeildarinnar, einu stigi á eftir Kolstad á toppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×