Enski boltinn

Abraham skoraði fjögur í ótrúlegum leik á Villa Park

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Áhorfendur fengu sannarlega sitt fyrir peninginn á Villa Park í kvöld
Áhorfendur fengu sannarlega sitt fyrir peninginn á Villa Park í kvöld vísir/getty
Tíu mörk voru skoruð á Villa Park í kvöld þegar Aston Villa og Nottingham Forest áttust við í ótrúlegum leik í ensku B-deildinni í fótbolta í kvöld.

Gestirnir frá Nottingham byrjuðu leikinn af miklum krafti. Lewis Grabban og Joao Carvalho skoruðu sitt hvort markið á fyrstu sex mínútum leiksins.

Tammy Abraham var búinn að jafna leikinn áður en korter var liðið af leiktímanum með tveimur mörkum á þriggja mínútna kafla.

Matthew Cash kom gestunum aftur yfir á 22. mínútu en Abraham fullkomnaði þrennuna af vítapunktinum áður en fyrri hálfleikur var úti. Yannick Bolasie fiskaði vítaspyrnuna þegar Jack Robinson braut á honum innan vítateigs.

Þegar dómari leiksins flautaði loks til hálfleiks var staðan því 3-3 eftir ótrúlegan fyrri hálfleik.

Seinni hálfleikurinn byrjaði af sama krafti og sá fyrri. Joe Lolley skoraði fyrir gestina á 51. mínútu og kom þeim yfir. Lolley hafði lagt upp öll þrjú mörk Forest í fyrri hálfleiknum en náði loks að skora sjálfur.

Á 68. mínútu fékk Tobias Figueirdo beint rautt spjald fyrir háa tæklingu á John McGinn. Gestirnir þurftu því að leika manni færri síðustu rúmu tuttugu mínútur leiksins.

Tammy Abraham jafnaði leikinn í þriðja sinn með sínu fjórða marki á 71. mínútu og fjórum mínútum síðar náði Anwar El-Ghazi að koma Villa yfir í fyrsta skipti í leiknum.

Lolley var þó ekki á því að hans þrjár stoðsendingar og eitt mark færu í súginn og hann lagði upp jöfnunarmark Lewis Grabban fyrir Forest á 82. mínútu.

Abraham hefði getað stolið sigrinum fyrir Villa með fimmta marki sínu í uppbótartíma en mark hans er dæmt af vegna rangstöðu. Nokkrum mínútum áður hafði El-Ghazi komið boltanum í netið en það mark var réttilega dæmt af þar sem hann handlék boltann í netið.

Sigurmarkið kom ekki og leikurinn endaði með 5-5 jafntefli.

Birkir Bjarnason var ekki í leikmannahópi Aston Villa þar sem hann er enn að ná sér eftir aðgerð á nára.

Úrslit kvöldsins í B-deildinni:

Aston Villa - Nottingham Forest 5-5

Ipswich - Bristol 2-3

Millwall - Birmingham 0-2

Swansea - West Brom 1-2

Wigan - Blackburn 3-1




Fleiri fréttir

Sjá meira


×