Erlent

2018 fjórða heitasta árið

Miðað við magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu má búast við því að meðalhiti muni aukast um þrjár til fimm gráður á þessari öld.
Miðað við magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu má búast við því að meðalhiti muni aukast um þrjár til fimm gráður á þessari öld. EPA/SERGEI ILNITSKY
Árið 2018 verður líklegast fjórða heitasta árið sem skráð hefur verið. World Meteorological Organization, eða WMO, sem er stofnun innan Sameinuðu þjóðanna, segir bráðnauðsynlegt að grípa til aðgerða til að sporna gegn hlýnun jarðarinnar. Stofnunin birti í dag skýrslu þar sem fram kemur að á tuttugu heitustu árin sem skráð hafa verið, hafa átt sér stað á síðustu 22 árum.

Síðustu fjögur ár eru þar að auki fjögur heitustu árin frá því að mælingar hófust.

Petteri Taalas, yfirmaður WMO, segir núverandi kynslóðir jarðarinnar vera þær fyrstu til að átta sig að fullu á manngerðum loftslagsbreytingum og í senn þær síðustu sem geta gert gripið til aðgerða til að sporna gegn þróun þessari.

Petteri Taalas, yfirmaður WMO.AP/Martial Trezzini
Hann segir að miðað við magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu, sem hafi aldrei mælst meiri, megi búast við því að meðalhiti muni aukast um þrjár til fimm gráður á þessari öld. Haldi jarðarbúar áfram að nýta jarðeldsneyti eins og nú verði hækkunin mun hærri.

Skýrsla WMO var birt í aðdraganda þess að sendinefndir nærri því 200 ríkja munu koma saman í Póllandi í næstu viku. Markmið þeirra verður að byggja á Parísarsamkomulaginu og reyna að draga úr manngerðum loftslagsbreytingum.

Parísarsamkomulaginu, sem tekur gildi árið 2020, er ætlað að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda og takmarka hækkun meðalhita jarðarinnar við eina og hálfa gráðu á þessari öld. Sérfræðingar hafa þó dregið í efa að undanförnu að það muni duga til. Nauðsynlegt sé að grípa til frekari aðgerða en samþykktar voru í París.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×