Handbolti

Tíu íslensk mörk í sigri Kristianstad á Veszprém

Bjarni Þórarinn Hallfreðsson skrifar
Ólafur var markahæsti leikmaður Kristianstad í kvöld
Ólafur var markahæsti leikmaður Kristianstad í kvöld Vísir/Getty
Íslendingarnir í liði Kristianstad, þeir Ólafur Andrés Guðmundsson, Arnar Freyr Arnarsson og Teitur Örn Einarsson áttu góðan dag er liðið sigraði ungverska stórliðið Veszprém í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Alls skoruðu Íslendingarnir tæpan þriðjung marka liðsins, eða alls tíu.



Fyrir leikinn var Kristianstad enn sigurlausir í Meistaradeildinni en Veszprém hafði unnið þrjá leiki.



Það voru gestirnir frá Ungverjalandi sem byrjuðu leikinn betur og náðu fjögurra marka forystu snemma leiks.



Veszprém hélt forystu sinni út fyrri hálfleikinn en Kristianstad náði hins vegar að minnka muninn niður í eitt mark áður en fyrri hálfleiknum lauk, en staðan var 15-14 Veszprém í vil er liðin gengu inn í búningsklefa.



Í seinni hálfleik var allt í járnum og skiptust liðin á að leiða með einu marki.



Þegar um sjö mínútur voru til leiksloka náðu heimamenn í Kristianstad hins vegar að auka við forystu sína og var hún mest þrjú mörk undir lok leiksins.



Kristianstad hélt forystu sinni út leikinn og sigruðu að lokum 32-29. Fyrsti sigur liðsins í Meistaradeildinni í ár staðreynd.



Ólafur var markahæsti leikmaður Kristianstad með sjö mörk. Þá skoraði Arnar Freyr tvö mörk og Teitur Örn eitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×