Erlent

Frakkar leita að skattsvikurum á samfélagsmiðlum

Andri Eysteinsson skrifar
Ráðherrann Gerald Darmanin ætlar að leita að skattsvikurum á miðlum eins og Instagram.
Ráðherrann Gerald Darmanin ætlar að leita að skattsvikurum á miðlum eins og Instagram. EPA/ Christophe Petit Tesson
Frönsk skattayfirvöld munu í byrjun næsta árs leita að skattsvikurum á samfélagsmiðlum.

Ráðherra skattamála og opinberra útgjalda, Gerald Darmanin greindi frá tilraunaverkefninu í sjónvarpsviðtali franska viðskiptaþættinum Capital, Reuters greinir frá.

Tilraunaverkefnið er liður í baráttunni gegn skattaundanskotum en staða yfirvalda gegn skattsvikurum styrktist með nýjum lögum sem tekið hafa gildi í Frakklandi.

Darmanin segir hægt að finna mögulega skattsvikara með því að bera saman samfélagsmiðla og opinber gögn.

„Ef þú ert með mikið af myndum af þér með glæsikerrunni þinni á meðan þú virðist ekki eiga að geta átt efni á henni, þá kannski ertu með hana í láni frá frænda þínum eða kærustunni, en kannski ekki, yfirvöld munu geta séð það,“ sagði ráðherrann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×