Erlent

Dregur verulega úr limlestingum á kynfærum stúlkna í Afríku

Kjartan Kjartansson skrifar
Kona mótmælir limlestingum á kynfærum kvenna í Berlín.
Kona mótmælir limlestingum á kynfærum kvenna í Berlín. Vísir/EPA
Verulega hefur dregið úr tíðni limlestinga á kynfærum stúlkna í löndum Afríku undanfarna tvo áratugi samkvæmt nýrri rannsókn. Sameinuðu þjóðirnar telja engu að síður að um 200 milljónir kvenna hafi orðið fyrir limlestingu á kynfærum í heiminum, aðallega í Afríku og Miðausturlöndum.

Rannsóknin nær til 29 ríkja allt aftur til ársins 1990. Mest hefur dregið úr limlestingunum í austanverðri Afríku. Árið 1995 var kynfærri 71% kvenna limlest en árið 2016 var hlutfallið komið niður í 8%, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Í norðurhluta Afríku fór hlutfallið úr 60% árið 1990 í 14% árið 2015 og í vestanverðri álfunni fór það úr 74% árið 1996 niður í 25% árið 2017. Skýrsluhöfundarnir benda á að tölurnar nái til stúlkna undir fjórtán ára aldri. Þekkt sé að eldri táningsstúlkur og ungar konur verði einnig fyrir limlestingum á kynfærum.

Limlesting á kynfærum kvenna hefur verið iðkuð í þrjátíu löndum í Afríku, Asíu og Miðausturlöndum. Yfirleitt er hún framkvæmd þegar stúlkurnar eru yngri en fimmtán ára. Þá eru öll ytri kynfærin eða hluti þeirra skorin af, þar á meðal snípurinn.

Í sumum tilfellum getur aðgerðin leitt til þess að stúlkum blæði út eða þær deyi af völdum sýkinga. Aðgerðin getur jafnframt leitt til viðvarandi verkja, ófrjósemi og vandamála við tíðir. Í sumum tilfellum getur hún leitt til lífshættulegra vandamála við barnsburð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×