Fótbolti

Haukur Heiðar sænskur meistari

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Haukur Heiðar Hauksson.
Haukur Heiðar Hauksson. vísir/getty
Haukur Heiðar Hauksson og félagar í AIK eru Svíþjóðarmeistarar eftir sigur á Kalmar í lokaumferð sænsku úrvalsdeildarinnar í dag.

Haukur Heiðar sat á bekknum allan leikinn, eins og hefur verið hans hlutskipti megnið af tímabilinu, þegar félagar hans unnu eins marks sigur á Kalmar á útivelli.

Robin Jansson skoraði eina mark leiksins í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Fyrir lokaumferðina átti Norrköping einnig möguleika á Svíþjóðarmeistaratitlinum. Simon Skrabb sá til þess að Norrköping gerði sitt og vann 0-1 sigur á Hacken en það dugði ekki til því AIK vann sinn leik og annað sætið því raunin.

Guðmundur Þórarinsson spilaði allan leikinn á kantinum hjá Norrköping.

Brommapojkarna fer í umspil um sæti í úrvalsdeildinni eftir sigur á Trelleborgs í Íslendingaslag. Kristján Flóki Finnbogason spilaði allan leikinn fyrir Brommapojkarna en skoraði þó ekki eitt af þremur mörkum liðsins.

Óttar Magnús Karlsson var á bekknum hjá Trelleborgs allan leikinn en Trelleborgs er fallið í næst efstu deild.

Arnór Ingvi Traustason lagði upp seinna mark Malmö í 2-0 sigri á Elfsborg. Arnór Ingvi hafði komið inn á sem varamaður eftir rúman klukkutíma leik. Malmö endaði í þriðja sæti deildarinnar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×