Enski boltinn

Aðeins helmingur leikmanna mega vera erlendir eftir Brexit

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson, Jóhann Berg Guðmundsson og Aron Einar Gunnarsson ættu allir að geta andað rólega því lið þeirra eru með færri en 12 erlenda leikmenn í dag.
Gylfi Þór Sigurðsson, Jóhann Berg Guðmundsson og Aron Einar Gunnarsson ættu allir að geta andað rólega því lið þeirra eru með færri en 12 erlenda leikmenn í dag. vísir/getty
Helmingur leikmanna aðalliða félaga í ensku úrvalsdeildinni verða að vera breskir samkvæmt nýrri tillögu enska knattspyrnusambandsins í ljósi útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Tillagan verður lögð fyrir félögin 20 sem spila í úrvalsdeildinni í þessari viku.

Úrvalsdeildin er undir mikilli pressu að komast að samkomulagi við enska knattspyrnusambandið vegna Brexit. Ef það næst ekki þurfa allir leikmenn sem koma frá Evrópusambandslöndum að fara í gegnum sama ferli og uppfylla sömu kröfur og leikmenn utan Evrópusambandsins.

Í dag eru reglurnar þannig að félögin mega hafa 17 af 25 aðalliðsleikmönnum sínum erlenda. Nýja tillagan minnkar þennan fjölda niður í 12.

 

Fjöldi erlendra leikmanna í liðum ensku úrvalsdeildarinnar í dagmynd/the times
13 af félögunum 20 í deildinni þetta tímabilið eru með fleiri en 12 erlenda leikmenn innanborðs. Fimm lið eru með 17 og fjögur 16 leikmenn.

Til þess að koma til móts við félögin ætlar knattspyrnusambandið að gefa styrk fyrir hvert vinnuleyfi sem gefið er út til erlends leikmanns og vonast þannig eftir því að bestu leikmenn Evrópu vilji enn koma í úrvalsdeildina.

Enska knattspyrnusambandið vill nýta sér Brexit til þess að hækka fjölda breskra leikmanna í úrvalsdeildinni en á sama tíma halda tækifærum félaganna til þess að fá til sín stór erlend nöfn.

Eins og með alla aðra samninga varðandi útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu tækju nýju reglurnar ekki gildi strax heldur yrðu þær hægt og rólega innleiddar á næstu árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×