Enski boltinn

Kosið um VAR í ensku deildinni á fimmtudag

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ísland fékk vítaspyrnu í leiknum gegn Nígeríu á HM eftir að dómarinn nýtti sér aðstoð VAR
Ísland fékk vítaspyrnu í leiknum gegn Nígeríu á HM eftir að dómarinn nýtti sér aðstoð VAR vísir/getty
Kosning um hvort innleiða eigi myndbandsdómgæslu, VAR, í ensku úrvalsdeildina á næsta tímabili gæti farið fram á fimmtudaginn.

Forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar og félaganna í deildinni koma saman á fundi á fimmtudag. Á fundinum mun úrvalsdeildin og dómarasamtökin halda kynningu um myndbandsdómgæsluna og þær prófanir sem gerðar hafa verið á henni í Englandi.

Málið verður rætt í framhaldinu og mögulega endað á kosningu um hvort innleiða eigi dómgæsluna strax á næsta tímabili.

Stuðningsmenn VAR gætu vart fengið betri tímasetningu á þessum fundi þar sem tvö stór atvik komu upp í leikjum nýliðinnar helgar þar sem ákall var eftir myndbandsdómgæslunni.

Charlie Austin var vægast sagt reiður út í þá ákvörðun að dæma mark hans af í 1-1 jafntefli Southampton og Watford, enda sýndu endursýningar að markið var klárlega löglegt. Mark Hughes, stjóri Southampton, sagði ensku deildina fasta á miðöldum.

Í leik Liverpool og Fulham var mark dæmt af Fulham í stöðunni 0-0, á meðan leikmenn Fulham voru að jafna sig á ákvörðuninni voru leikmenn Liverpool fljótir að koma boltanum í leik aftur og skoruðu 14 sekúndum eftir að boltinn var í þeirra neti.

Í apríl kusu félögin gegn innleiðingu VAR en tilfinningin að innleiðslan sé óumflýanleg fer vaxandi.

Ef kosið verður á fimmtudag en ekki næst saman um meirihluta verður ákvörðuninni frestað til næsta fundar sem er í febrúar.




Tengdar fréttir

Brjálaður Austin vakti lukku í Messunni

Charlie Austin, framherji Southampton, var heldur betur pirraður eftir 1-1 jafntefli Southampton gegn Watford í ensku úrvaldsdeildinni um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×