Körfubolti

Helena og Finnur á leiðinni heim

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Helena var valin leikmaður ársins í Domino's deild kvenna síðasta vetur.
Helena var valin leikmaður ársins í Domino's deild kvenna síðasta vetur. vísir/andri marinó
Helena Sverrisdóttir er á leiðinni heim til Íslands úr atvinnumennsku. Finnur Atli Magnússon kemur með henni og gæti spilað með KR í Domino's deild karla.

Helena varð Íslandsmeistari með Haukum í vor en gekk til liðs við ungverska liðið Cegledi í Ungverjalandi.

Það hefur ekki gengið vel hjá liðinu, það er bara með einn sigur úr sex leikjum í deildinni.

Helena kom til Íslands á dögunum til þess að taka þátt í landsliðsverkefni, kvennalandslið Íslands á fram undan tvo leiki í undankeppni EuroBasket. Hún sagði búslóðina hafa komið með heim.

„Við erum að koma heim. Við tókum allt dótið með okkur núna og erum að koma heim,“ sagði Helena á æfingu landsliðsins í dag.

„Þjálfarinn var að hætta og það er léleg stjórn á bakvið liðið. Ég vil ekki tala illa um þetta en það gengur mjög illa. Þess vegna er ég búin að hlakka til að komast heim og spila með stelpunum, mjög spennt fyrir því að komast í annað umhverfi.“

Þegar Helena var spurð hvort hún yrði með Haukum í næsta leik í Domino's deild kvenna var svarið: „Kemur í ljós, ég veit það ekki alveg.“

Finnur Atli hefur spilað með Haukum síðustu ár en fór með Helenu út til Ungverjalands. Í sumar skráði hann sig hins vegar í uppeldisfélagið KR. Vísir heyrði í Inga Þór Steindórssyni, þjálfara KR, og hann sagðist ekki hafa talað við Finn Atla enn sem komið er, Finnur muni þó funda með KR-ingum á næstu dögum.


Tengdar fréttir

Helena til Ungverjalands

Helena Sverrisdóttir mun ekki leika með Íslandsmeisturum Hauka á næstu leiktíð en hún hefur samið við lið í Ungverjalandi.

Finnur Atli ráðinn styrktarþjálfari í Ungverjalandi

Finnur Atli Magnússon verður ekki með deildarmeisturum Hauka á næsta tímabili í Domino's deild karla. Hann er á leið út til Ungverjalands þar sem hann verður styrktarþjálfari ungverska liðsins Cegled.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×