Enski boltinn

Hvert félag í ensku deildinni á að borga honum 40 milljónir í starfslokabónus

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Richard Scudamore með Pep Guardiola.
Richard Scudamore með Pep Guardiola. Vísir/Getty
Richard Scudamore ætti að hafa það mjög gott á eftirlaunaárum sínum enda er nú sú krafa á félögin í ensku úrvalsdeildinni að þau greiði honum tugi milljóna hvert í starfslokasamning.

Richard Scudamore er framkvæmdastjóri ensku úrvalsdeildarnnar en hann lætur að störfum í næsta mánuði. Scudamore hefur starfað fyrir ensku úrvalsdeildina í nítján ár en á þeim tíma hefur deildin vaxið og dafnað.

Fyrsti sjónvarpssamningurinn í hans tíð var um 670 milljóna punda virði en enska úrvalsdeildin fékk um 5,14 milljarða punda fyrir þann nýjasta. Það fer því ekkert á milli mála að Richard Scudamore hefur unnið mjög gott starf fyrir liðin í ensku úrvalsdeildinni.





Öll tuttugu félögin í ensku úrvalsdeildinni hafa nú fengið þá beiðni inn til sín að hvert og eitt muni leggja til 250 þúsund pund, rúmlega 40 milljónir íslenska króna, í starfslokasjóð fyrir Scudamore.

Það er búist við því að félögin verði öll við þeirri beiðni en Scudamore myndi þá ganga út með fimm milljónir punda eða 805 milljónir íslenskra króna.

Bruce Buck, stjórnarmaður Chelsea, hefur talað fyrir því að Richard Scudamore fái hinn veglega starfslokabónus en þeir eru miklir vinir.

Scudamore varð framkvæmdastjóri í júní 2014 en hann starfaði fyrstu fimmtán árin sem yfirmaður framkvæmdastjórnar ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×