Viðskipti innlent

Íslandsbanki hafnaði sáttatilboði Gamla Byrs

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka. fréttablaðið/eyþór
Íslandsbanki hafnaði nýverið tillögu Gamla Byrs, sem lauk nauðasamningum í janúar árið 2016, að sáttum í ágreiningsmáli um virði útlánasafns sem bankinn keypti af Byr og ríkissjóði haustið 2011. Gamli Byr taldi jafnframt gagntilboð bankans, sem var það sama og bankinn lagði fram í byrjun ársins, óviðunandi.

Fram kemur í bréfi sem stjórn Gamla Byrs sendi kröfuhöfum 7. nóvember síðastliðinn og Markaðurinn hefur undir höndum að félagið hafi – í kjölfar uppbyggilegra viðræðna við fulltrúa Íslandsbanka – gert bankanum formlegt sáttatilboð til þess að binda enda á deiluna. Bankinn hafi í fyrstu brugðist jákvætt við tilboðinu en síðar hafnað því og lagt fram sama gagntilboð og í janúar síðastliðnum.

Samkvæmt heimildum Markaðarins var tilboð Gamla Byrs lítillega hærra en gert var ráð fyrir í óformlegum viðræðum deilenda fyrir um ári. Var þá áætlað að ríkið myndi fá – á grundvelli sáttatillögu Byrs – um þrjá milljarða króna í sinn hlut. Slík greiðsla hefði þá verið þríþætt, í formi tveggja milljarða króna stöuðugleikaframlags, lausnargjalds til Íslandsbanka og útgreiðslu til bankans sem kröfuhafa í slitabúinu, en bankinn á um átta prósent krafna í Gamla Byr.

Í áðurnefndu bréfi til kröfuhafa Gamla Byrs segir að þrátt fyrir að enn beri mikið á milli félagsins og Íslandsbanka hafi deilendur heitið því að halda viðræðum áfram.

Gert er ráð fyrir að frávísunarkrafa Gamla Byrs í skaðabótamáli Íslandsbanka á hendur félaginu verði tekin fyrir í héraðsdómi á morgun. Á sama tíma er búist við því að niðurstaða dómkvaddra matsmanna, sem bankinn fékk til þess að meta meint fjártjón sitt, liggi fyrir en hátt í fimm ár eru síðan matsmennirnir voru skipaðir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×