Erlent

Fjölskylda talin hafa myrt átta meðlimi annarrar fjölskyldu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Edward Wagner, sem sést lengst til hægri á mynd, átti barn með einu fórnarlambanna, Hönnu Rhoden, samkvæmt frétt CBS-fréttastofunnar.
Edward Wagner, sem sést lengst til hægri á mynd, átti barn með einu fórnarlambanna, Hönnu Rhoden, samkvæmt frétt CBS-fréttastofunnar. Twitter/@OhioAG
Fjögurra manna fjölskylda hefur verið handtekin í tengslum við morð á fjölskyldu í Ohio-ríki í Bandaríkjunum árið 2016.

Hjónin George Wagner III og Angela Wagner og synir þeirra George og Edward eru sökuð um að hafa myrt átta meðlimi sömu fjölskyldunnar í apríl árið 2016. Fórnarlömbin báru öll ættarnafnið Rhoden og voru á aldrinum 16-44 ára. Þá var tvítug unnusta eins fjölskyldumeðlimsins einnig myrt.

Líkin átta fundust á fjórum stöðum í sýslunni en fólkið hafði allt verið skotið í höfuðið. Þá eru hin grunuðu sögð hafa þyrmt lífi þriggja barna fjölskyldunnar á aldrinum 0-3 ára. Myndir af fórnarlömbunum má sjá hér að neðan í tísti sem birt var á Twitter-reikningi saksóknara í Ohio.

Sky-fréttastofan hefur eftir lögreglustjóra í Pike-sýslu að morðin hafi verið afar vel ígrunduð og skipulögð. Þá hafi fjórmenningarnir reynt að hylma yfir glæpi sína, m.a. með því að eiga við farsímagögn og upptökur úr öryggismyndavélum.

Saksóknari segir morðin tengjast forræði yfir barni. Samkvæmt frétt bandarísku CBS-fréttastofunnar átti Edward Wagner dóttur með einu fórnarlambanna. Wagner-fjölskyldan á öll yfir höfði sér dauðarefsingu, verði meðlimir hennar fundnir sekir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×