Íslenski boltinn

Enn kvarnast úr leikmannahóp Stjörnunnar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ana handsalar samninginn.
Ana handsalar samninginn. MYND/HK VÍKINGUR
Það fækkar í leikmannahóp Stjörnunnar í Pepsi-deild kvenna en nokkrir leikmenn hafa yfirgefið liðið eftir að tímabilinu lauk.

Fyrirliðinn Ásgerður Stefanía Baldursdóttir ákvað að yfirgefa liðið á dögunum en þar áður hafði Lára Kristín Pedersen ákveðið að yfirgefa Stjörnuna.

Nú hefur Ana Victoria Cate ákveðið að yfirgefa Garðarbæjarliðið en hún gengur til liðs við HK/Víking. Ana er fjölhæfur leikmaður sem hefur leikið með Stjörnunni og FH á Íslandi.

„Ana spilaði lítið með Stjörnunni á síðasta sumri vegna meiðsla og þess að hún gengur með barni. Hún á von á sér með vorinu og verður vonandi komin af stað um mitt næsta sumar,“ segir í tilkynningu HK/Víkings.

„Ana hefur fengið þá umsögn að geta spilað allar stöður og að hún taki virkan þátt í sóknarleiknum allt frá öftustu línu, en einnig að hún spili af krafti og mikilli baráttu. Hún var valin í úrvalslið pepsi-deildar 2016 ásamt því vera valin besti leikmaður Stjörnunnar af leikmönnum liðsins það ár.“

HK/Víkingur var nýliði í Pepsi-deildinni á síðustu leiktíð og endaði í sjöunda sæti deildarinnar. Þórhallur Víkingsson er þjálfari liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×