Enski boltinn

Nýfæddur er Rooney spilaði sinn fyrsta landsleik en spilar með honum annað kvöld

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sancho í leik með Dortmund.
Sancho í leik með Dortmund. vísir/getty
Jadon Sancho, nýjasta stjarna Englendinga, verður að öllum líkindum í byrjunarliði Englendinga í æfingaleik gegn Bandaríkjunum annað kvöld.

Þessi átján ára gamli vængmaður hefur farið á kostum í liði Borussia Dortmund á tímabilinu en Dortmund er á toppnum í þýsku úrvalsdeildinni með örugga forystu.

Hann lék sinn fyrsta leik fyrir England er hann kom inn á sem varamaður gegn Króatíu í Rijeka í síðasta mánuði og nú fær hann væntanlega enn meira tækifæri á morgun.

Leikurinn gegn Bandaríkjunum annað kvöld verður kveðjuleikur Wayne Rooney fyrir enska landsliðið en Rooney fékk kveðjuleikinn eftir að hafa verið hættur með enska landsliðinu.

Sancho var einungis tveggja ára gamall er Rooney lék sinn fyrsta leik er England hafði betur gegn Ástralíu 2003.

Flautað verður til leiks klukkan 20.00 annað kvöld og verður leikurinn í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×