Enski boltinn

Claudio Ranieri aftur í ensku úrvalsdeildina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Claudio Ranieri.
Claudio Ranieri. Vísir/Getty
Enska úrvalsdeildarliðið Fulham hefur rekið knattspyrnustjóra sinn og ráðið Claudio Ranieri í staðinn.

Slavisa Jokanovic var í dag rekinn sem knattspyrnustjóri Fulham en nýliðarnir sitja í neðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með aðeins 5 stig í fyrstu 12 leikjunum.





Hinn 67 ára gamli Claudio Ranieri fær margra ára samning en Ítalinn var síðast í ensku úrvalsdeildinni á árunum 2015 til 2017 þegar hann stýrði liði Leicester City.

Claudio Ranieri gerði Leicester City óvænt að Englandsmeisturum árið 2016 en hann var síðan rekinn í febrúar árið eftir. Ranieri fór þaðan til franska liðsins Nantes en hætti þar síðasta vor.

Fyrsti leikur Ranieri með Fulham liðið verður á heimavelli á móti Southampton 24. nóvember næstkomandi eða eftir tíu daga. Nú stendur yfir landsleikjahlé.

Þetta er ekki fyrsta Lundúnaliðið sem Claudio Ranieri stýrir því fyrstu kynni hans að ensku úrvalsdeildinni var sem knattspyrnustjóri Chelsea frá 2000 til 2004.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×