Sport

Íbúar Calgary höfnuðu því að borgin haldi Ólympíuleikana 2026

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lukkudýr ÓL 1988. Íbúar Calgary eru í engu Ólympíuskapi þrjátíu árum síðar.
Lukkudýr ÓL 1988. Íbúar Calgary eru í engu Ólympíuskapi þrjátíu árum síðar. Vísir/Getty
Kanadíska borgin Calgary hefur hætt við framboð sitt til Alþjóðaólympíunefndarinnar um að halda Vetrarólympíuleikana 2026. Íbúar borgarinnar kusu og meirihlutinn sagði nei.

Í fyrstu voru átta líkleg framboð en nú standa aðeins tvö eftir. Stokkhólmur er annað þeirra en hitt kemur frá ítölsku borgununum Mílanó og Cortina d'Ampezzo.





Hinar borgirnar sem hafa hætt við framboð sitt eru Erzurum í Tyrklandi, Sapporo í Japan, Graz í Austurríki og Sion í Sviss auk þess sem Norðmenn (Lillehammer eða Telemark) og Kasakar (Almaty) voru um tíma að íhuga framboð.

Calgary gaf íbúum sínum tækifæri til að ráða því hvort borgin héldi aftur Vetrarólympíuleika en leikarnir fóru þar fram áreið 1988.

132.832 kusu með því að halda leikana (43,6 prósent) en 171.750 voru á móti því (56,4 prósent).





Gríðarlegur kostnaður hefur farið illa með fjárhag borga og landa sem hafa haldið síðustu leika og það er risastór ákvörðun fyrir borgarstjórnir og ríkisstjörnir að taka á móti Ólympíuleikum.

Alþjóðaólympíunefndin er mjög kröfuhörð og þær borgir sem halda Ólympíuleika þurfa meðal annars að byggja upp stór og mikil íþróttamannvirki til að standast þær kröfur.

Síðustu vetrarleikar fóru fram Pyeongchang í Suður-Kóreu fyrr á þessu ári og þeir næstu fara fram í Peking í Kína árið 2022.

Nú er að sjá hvort Stokkhólmur eða ítölsku borgirnar haldi út en það verður kosið um gestgjafa Vetrarólympíuleikanna 2026 23. júní á næsta ári. Fari svo að þessi framboð hætti líka við er talað um það að bandaríska borgin Salt Lake City geti komið til bjargar en leikarnir fóru þar fram árið 2002.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×