Körfubolti

LeBron James komst upp fyrir Wilt í nótt og nú eru bara fjórir fyrir ofan hann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James.
LeBron James. Vísir/Getty
LeBron James varð í nótt fimmti stigahæsti leikmaðurinn í sögu NBA-deildarinnar þegar hann skoraði 44 stig í sigri Los Angeles Lakers á Portland Trail Blazers.

James komst upp fyrir Wilt Chamberlain og nú eru bara fjórir leikmenn fyrir ofan hann á listanum. James náði takmarkinu í fjórða leikhluta þegar hann skoraði körfu og fékk víti að auki. Hann jafnaði Wilt með körfunni og fór upp fyrir hann þegar hann skoraði úr vítaskotinu sem fylgdi.





LeBron James er nú með 31.425 stig á NBA-ferlinum en þeir sem eru fyrir ofan hann eru Kareem Abdul-Jabbar (38.387 stig), Karl Malone (36.928), Kobe Bryant (33.643 points) og síðast en ekki síst sjálfur Michael Jordan með 32.292 stig.

Ef James heldur áfram að skora 26,4 stig að meðaltali í leik eins og til þessa á tímabilinu og missir ekki úr leik þá ætti hann að geta náð Jordan í janúar á næsta ári.





James er nú kominn til Los Angeles Lakers en það vekur athygli að fimm af sex stigahæstu leikmönnum í sögu NBA hafa spilað fyrir Lakers á einhverjum tímapunkti eða allir nema Michael Jordan.

LeBron James tók með sér boltann þegar hann yfirgaf salinn og sagði eftir leikinn að bæði boltinn og treyjan hans frá leiknum verði hér eftir til sýnis í IPromise-skólanum hans í Akron í Ohio-fylki.















NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×