Enski boltinn

Morata leitaði hjálpar sálfræðings í sumar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Morata og Yerri Mina í leik Everton og Chelsea á dögunum.
Morata og Yerri Mina í leik Everton og Chelsea á dögunum. vísir/getty
Alvaro Morata, framherji Chelsea og spænska landsliðsins, segist hafa leitað hjálpar hjá sálfræðingum eftir erfitt tímabil hjá enska stórliðinu í fyrra.

Morata gekk í raðir Chelsea fyrir 70 milljónir punda fyrir rúmu ári síðan. Hann byrjaði vel; skoraði sjö mörk í fyrstu sjö leikjunum en svo var lítið að frétta. Hann skoraði þrjú mörk frá 30. desember og út tímabilið.

„Aldrei áður hafði ég hugsað um það að þjálfa hugann. Ég gerði mér grein fyrir því að ég þurfti hjálp,“ sagði Morata í viðtali við spænska dagblaðið ABC.

„Í fyrstu fannst mér vandræðalegt að tala við sálfræðing og segja honum frá öllum mínum vandamál en með hjálp allra hef ég endurheimt gleðina í fótboltanum.“

Morata hefur skorað fimm mörk í síðustu sjö leikjum og er kominn aftur í spænska landsliðið sem mætir Króatíu í kvöld.

„Í sumar sagði ég við sjálfan mig að ég vildi fara til liðs þar sem ég yrði ánægður aftur og án allrar pressu,“ sagði Morata en er nú mjög ánægður hjá Chelsea eftir vinnu sumarsins:

„Ég hef aldrei verið jafn ánægður og núna hjá Chelsea og mjög svo ánægður í landsliðinu einnig þrátt fyrir að ég hafi ekki verið að spila minn besta leik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×