Körfubolti

Valsmenn semja við bestu körfuboltakonu landsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir í Valsbúningnum í dag.
Helena Sverrisdóttir í Valsbúningnum í dag. Vísir/Vlhelm
Helena Sverrisdóttir hefur samið við Val og mun spila með Hlíðarendaliðinu í Domino´s deild kvenna í körfubolta í vetur. Valsmenn héldu blaðamannafund í hádeginu þar sem þeir tilkynntu um komu Helenu Sverrisdóttur.

Þetta eru ein allra stærstu félagsskiptinn í kvennakörfunni í langan tíma en flestir bjuggust við því að Helena færi aftur í Hauka þegar kom í ljós að hún væri að koma heim frá Ungverjalandi.

Helena Sverrisdóttir mun því spila við hlið systur sinnar. Guðbjörg Sverrisdóttir, yngri systir Helenu, er fyrirliði Valsliðsins, en þær hafa ekki spilað í sama félagi í áratug eða síðan að Helena fór út í háskólanám haustið 2007.

Helena er fyrirliði íslenska landsliðsins og hefur verið besta körfuboltakona landsins í meira en áratug. Engin önnur kona hefur sem dæmi náð að skora yfir þúsund stig fyrir íslenska landsliðið.

Helena var valin besti leikmaður deildarinnar á síðasta tímabili þegar hún var með 19,7 stig, 13,4 fráköst og 8,9 stoðsendingar að meðaltali í leik. Þetta var í fimmta sinn sem hún er kosin besti leikmaður úrvalsdeildar kvenna en hún hlaut einnig þessi verðlaun 2005, 2006, 2007 og 2016.

Helena var með glæsilega þrennu að meðaltali í lokaúrslitunum um Íslandsmeistaratitilinn í vor þar sem Haukar unnu Val og urðu Íslandsmeistarar. Í úrslitaleikjunum fimm var Helena með 20,2 stig, 12,2 fráköst og 10,8 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Helena Sverrisdóttir spilaði með ungverska liðinu VBW CEKK Cegléd í vetur en Ungverjarnir stóðu ekki við sitt og Helena ákvað að koma heim.

Helena var með 14,3 stig að meðaltali í ungversku deildinni en hún skoraði 20 stig, tók 7 fráköst og gaf 4 stoðsendingar í sínum síðasta leik með Cegléd.

Valskonur hafa ekki verið alltaf sannfærandi í upphafi tímabilsins þrátt fyrir miklar væntingar. Liðið vann síðasta leik en er í 5. sæti með 3 sigra og 5 töp. Það er ljóst að með komu Helenu eru liðið orðið líklegt til afreka í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×