Umfjöllun og viðtöl: KR - Haukar 97-88 | Finnur og Emil unnu gömlu félagana

Skúli Arnarson skrifar
Björn Kristjánsson
Björn Kristjánsson vísir/bára
Það var leikinn sveiflukenndur körfuboltaleikur í DHL höllinni í kvöld þegar KR sigraði Hauka með 97 stigum gegn 88 í kvöld. Leikurinn var liður í sjöundu umferð Domino's deildar karla. Fyrir leikinn í kvöld voru Haukar í sjöunda sæti með sex stig og KR tveimur sætum ofar með átta stig.

Lykilmaður KR og einn besti körfuboltamaður landsins, Jón Arnór Stefánsson, lék ekki með KR í kvöld en hann var heima með 40 stiga hita. Haukar voru einnig án leikmanna en Kristján Leifur og Kristinn Marínósson voru ekki með liðinu í kvöld.

Leikurinn var í járnum stærstan hluta fyrsta leikhluta, en KR endaði leikhlutann betur og var með sjö stiga forystu að fyrsta leikhluta loknum, 27-20. Það var svo í öðrum leikhluta sem KR tók öll völd. KR gersamlega valtaði yfir Hauka í öðrum leikhluta með Björn Kristjánsson fremstan í flokki. Þegar fjórar mínútur voru búnar af öðrum leikhluta var Björn kominn með fjóra þrista fyrir KR og KR komið með 17 stiga forystu.

Í hálfleik var staðan 52-31 fyrir KR og það leit út fyrir það að úrslitin myndu verða ansi ljót fyrir Hauka.

Eitthvað hefur Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, náð að lífga sína menn við í hálfleik en Haukarnir komu frábærlega út í seinni hálfleikinn. Þeir skoruðu fyrstu 17 stig seinni hálfleiksins og allt í einu var 21 stiga forysta KR orðin að fjórum stigum eftir einungis rúmar tvær mínútur í seinni hálfleik. KR kastaði boltanum í hendurnar á leikmönnum Hauka í hverri sókninni á fætur annari og Ingi Þór, þjálfari KR, var allt annað en sáttur við sína menn.

Eftir þetta áhlaup Hauka náðu KR-ingar aðeins áttum og fóru að spila almennilegar sóknir. Þá kviknaði hressilega á ungum leikmanni KR, Orra Hilmarssyni, sem er bróðir Darra Hilmarssonar sem hætti hjá KR fyrir þetta tímabil eftir að hafa átt gífurlega farsæl ár með KR undanfarin ár. Orri fór að setja niður hvern þristinn á fætur öðrum og KR náði aftur níu stiga forystu. Haukar náðu aðeins að laga stöðuna fyrir fjórða leikhluta og var staðan 71-65 fyrir síðasta leikhluta eftir frábæran leikhluta hjá Haukum.

Haukar byrjuðu fjórða leikhluta vel og var munurinn á liðinum aðeins eitt stig eftir að Hjálmar Stefánsson skoraði þriggja stiga körfu þegar um tvær mínútur voru liðnar af fjórða leikhluta. Þá hrökk KR hinsvegar í gang og skoruðu átta stig í röð og munurinn orðinn níu stig. Eftir það náðu Haukar ekki að koma til baka og níu stiga sigur KR niðurstaðan.

Eftir sigurinn eru KR með tíu stig en Haukarnir eru enn með sex stig.

Af hverju vann KR?

Það er óhætt að segja að fyrri hálfleikurinn hafi verið stærsta ástæðan fyrir því að KR vann þennan leik. Þeir voru frábærir á meðan Haukar voru hræðilegir. KR hittu einnig mjög vel úr þriggja stiga skotum sínum í kvöld, en þeir voru með 49% nýtingu í þriggja stiga skotum á meðan Haukar voru aðeins með 24%. Bekkurinn kom líka sterkur inn fyrir KR með 44 stig á meðan bekkurinn hjá Haukum var með sjö.

Hverjir stóðu upp úr?

Í KR var Orri Hilmarsson frábær með 19 stig og Björn Kristjánsson var líka mjög flottur með 21 stig. Næstur kom Julian Boyd með 18 stig.

Í liði Hauka var Hjálmar Stefánsson flottur með 21 stig en þetta er aðeins annar leikurinn hans á tímabilinu vegna meiðsla.

Hvað gekk illa?

Fyrri hálfleikurinn hjá Haukum gekk skelfilega. Þeir voru 21 stigi undir eftir hann og leikurinn ætti í rauninni að vera búinn. Einnig fengu Haukar ekki nægilegt framlag frá bekknum í kvöld en bekkur Hauka skoraði aðeins sjö stig.

Hvað gerist næst?

Næst á KR leik gegn Grindavík sem hafa verið að spila talsvert betur síðustu vikur. Það er ljóst að KR má ekki eiga jafn slakan leikhluta og þriðji leikhlutinn var í kvöld gegn Grindavík ætli þeir sér að sigra. Kristófer Acox gæti snúið aftur í svarthvítu treyjuna í þeim leik.

Haukar eiga leik gegn Keflavík sem hafa verið að spila liða best það sem af er móti. Það verður fróðlegt hvað Haukarnir gera gegn Keflvíkingum í þeim leik en það er nokkuð ljóst að þeir þurfa að spila betur en þeir gerðu í kvöld. 

 

Orri: Alltaf gaman að hitta, sérstaklega þrista

„Þetta var flottur sigur. Gott að koma eftir slæmt tap á móti Njarðvík,” sagði besti maður leiksins, Orri Hilmarsson að leik loknum.

KR voru hrikalegir í byrjun seinni hálfleiks, en hvað fannst Orra klikka?

„Hausinn er ekki í lagi. Við byrjum að slaka á. Þetta er búið að gerast alltof oft í vetur og við verðum bara að laga þetta.”

Það fór nánast allt ofan í körfuna sem Orri henti upp í loftið í dag. Það hlýtur að vera ljúft fyrir ungan leikmann að koma inn í liðið og hitta svona vel.

„Það er alltaf gaman að hitta, sérstaklega þrista”

Það eru mikar leikmannabreytingar hjá KR og Orri er viss um að þær bæti liðið.

„Þetta er bara flott. Flott að fá Kristó og Finn og þetta bætir bara liðið og liðsandann.”

Ívar: Erfitt að koma hingað og spila bara þrjá leikhluta. 

„Það er erfitt að koma hingað og spila bara þrjá leikhluta,” sagði Ívar um leik sinna manna í dag. 

Það varð algjört hrun í leik Hauka í öðrum leikhluta og Ívar vissi ekki alveg hvað hefði gerst.

„Ef ég vissi það þá væri ég líklega ekki að þjálfa hér. Við urðum okkur til skammar í dag en við sýndum karakter fannst mér.” 

„Það kostaði mikla orku að koma til baka og við vorum bara orðnir þreyttir í lokin,” sagði Ívar en Haukar virtust þreyttir í lok leiks.”

Það var allt annað að sjá til Hauka í seinni hálfleik, en hverju breytti Ívar í hálfleik?

„Það eina sem við breyttum í hálfleik var bara hugarfarið. Við fórum að fagna þegar við skoruðum og fórum að tala saman.”

Finnur Atli Magnússon sem lék síðast með Haukum, gekk til liðs við KR í gær. Ívar segir að Finnur einn geti svarað því hvort að það hafi einhverntímann verið á teikniborðinu að hann færi aftur til Hauka.

„Það er bara Finnur sem getur svarað því.”

Ingi Þór: Fyrst og fremst ánægður með sigurinn

„Ég er fyrst og fremst ánægður með að hafa unnið þennan leik. Eftir að hafa verið að gera fína hluti, sérstaklega í vörninni, þá mætum við í seinni hálfleik alveg öfugt við það hvernig við töluðum um. Mér fannst vanta neistann og leiðtogann í liðið. Við vorum að gera grundvallar mistök gegn annars ágætri svæðisvörn Hauka og vorum að gefa þeim hraðaupphlaup og auðveld stig. En við náum að snúa því við og ég er gífurlega ánægður með það,” sagði Ingi Þór, þjálfari KR, eftir sigurinn í kvöld. 

Leikmenn KR virtust koma of rólegir til leiks í seinni hálfleik, líkt og þeir héldu að sigurinn væri unninn. 

„Við töluðum um það í hálfleik að halda áfram en miðað við hvernig menn komu inn í seinni hálfleik þá fannst mér menn halda að eftirleikurinn í seinni hálfleik yrði auðveldur afþví að við vorum 21 stigi yfir í hálfleik. En málið er bara það að 21 stig er ekkert í körfubolta og munurinn var nánast farinn á tveimur mínútum.”

Ingi var ánægður með ungu strákana í kvöld 

„Við fengum frábært framlag frá Orra og Villi kom líka flottur inn. Pavel og Bjössi voru líka flottir í leiknum og margir áttu góðar skorpur.”

Ingi segir að breytingarnar á hópnum komi til með að breyta KR liðinu endanum. 

„Það mun gera það á endanum, en akkurat núna erum við ekki komnir í einhverja rútínu og eitthvað sem menn hafa verið með áður. Hér er bara annað kemestrí, kemestríið sem er búið að vera í gangi og vann Tindastól. Það mun riðlast og liðið mun breytast. Við eigum eftir að fara yfir það og sjá hvað við eigum eftir að gera.”

„Róm var ekki byggð á einum degi,” segir Ingi um það hvort að nýju leikmennirnir komi til með að koma beint í liðið. KR eiga Grindavík í næsta leik, lið sem Ingi hefur verið mjög hrifinn af upp á síðkastið. 

„Við erum að fara að spila við lið sem er á þvílíkri uppleið. Við þurfum að undirbúa okkur vel fyrir þann leik og nota vikuna vel.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira