Innlent

Erlendir staðlar við áætlun kostnaðar

Sighvatur Jónsson skrifar
Framkvæmdastjóri ráðgjafafyrirtækis telur mikilvægt að nota erlenda staðla til að meta áhættu við gerð kostnaðaráætlana. Þetta kom fram á fundi verkfræðinga í morgun sem haldinn var vegna umræðu um framúrkeyrslu Reykjavíkurborgar við framkvæmdir við braggann í Nauthólsvík.

Bjartsýni við opinberar framkvæmdir

Meiri bjartsýni virðist ríkja við áætlanagerð vegna opinberra framkvæmda en í einkageiranum. Þetta er meðal þess sem verkfræðingar og fleiri ræddu í morgun.

Haukur Óskarsson, framkvæmdastjóri ráðgjafafyrirtækisins Refskeggs, vísar til bandarískra staðla sem hafa verið notaðir með góðum árangri við áhættumat vegna framkvæmda hérlendis við stóriðju og virkjanir

„Opinberir aðilar, einkaaðilar, fjármögnunaraðilar geta þannig treyst á að kostnaðaráætlanir séu unnar eftir stöðlum sem eru viðurkenndir,“ segir Haukur.

Hvatning til verkfræðinga

Meðal frummælenda á fundinum var Gunnar Svavarsson verkfræðingur og framkvæmdastjóri Nýs Landspítala ohf.

„Þessi fundur er hvatning til verkfræðinga að gera enn betur. Ég hef fulla trú á að verkfræðingastéttin vilji hafa það þannig,“ segir Gunnar.

Aðspurður um hvort áætlanir um nýjan Landspítala munu standast segir Gunnar að þær muni vonandi gera það. Stefnt sé að því að öll verkframkæmd standist í samræmi við áætlanir hverju sinni.

Mismunandi kostnaðaráætlanir

Sigríður Sigurðardóttir, arkitekt, er sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs Háskóla Íslands. Á fundinum hélt hún erindi um ábyrgð og ákvörðunarferli á framkvæmdatíma.

Sigríður talaði um fjögur stig kostnaðaráætlana. Við umræðu um framúrkeyrslu við verklegar framkvæmdar skipti máli við hvaða kostnaðaráætlun er miðað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×