Skoðun

Að brjóta af sér

Heiðar Guðjónsson skrifar

Mikið hefur verið fjallað um aðför Seðlabanka Íslands að Samherja hf. Hæstiréttur hefur nú staðfest að bankinn braut stjórnsýslulög. Bankinn neitar hins vegar að viðurkenna ábyrgð á þessum misgjörðum sínum, eins og annarri misbeitingu á valdi sínu við framkvæmd gjaldeyrishafta.



Seðlabanki Íslands kærði félag mitt, Ursus ehf., ranglega fyrir að brjóta lög um gjaldeyrismál árið 2010 þegar Ursus var hæstbjóðandi ásamt öðrum í opnu söluferli Sjóvár. Sérstakur saksóknari féllst ekki á málatilbúnað Seðlabankans og lét málið niður falla. Seðlabankinn kærði ákvörðunina til ríkissaksóknara sem staðfesti ákvörðun sérstaks saksóknara með löngu skammarbréfi til bankans. Félag mitt hafði engin lög brotið og einungis fært íslenskar krónur á milli reikninga í Íslandsbanka.



Ríkissaksóknari benti m.a. á, að það færi gegn stjórnarskrá að beita mig viðurlögum vegna þessara viðskipta. Eftir að niðurstaðan lá fyrir boðaði Seðlabankinn æðsta handhafa ákæruvalds í landinu á sinn fund og sagði við fjölmiðla að í niðurstöðu ríkissaksóknara kæmi fram „grundvallarmisskilningur varðandi eðli fjármagnshreyfinga og framkvæmd gjaldeyrishafta, enda um flókið sérfræðimálefni að ræða“! Í samtali við blaðamann sagði svo fulltrúi Seðlabankans: „Hann slapp í þetta skiptið.“ Þessi orð hafa síðan verið endurtekin oftsinnis, nú síðast í tilfelli Samherja, og lýsa forherðingu Seðlabankans.



Það er fjöldinn allur af málum sem Seðlabankinn hefur stofnað til sem hafa skaðað einstaklinga og fyrirtæki. Þeir hafa kært tugi mála en orðið afturreka með þau öll.



Seðlabankinn hefur líka lagt stjórnvaldssektir á fjölda fyrirtækja en engin þessara sekta hefur staðist lög og þær jafnan verið felldar úr gildi af dómstólum. Nú síðast 8. nóvember í máli Samherja.



Bankinn segir að tæknileg atriði valdi því að ekkert í málatilbúnaði hans standist. En ekki hvað? Þarf bankinn ekki að fara eftir settum lögum eins og aðrir? Getur verið að forsvarsmenn bankans séu haldnir grundvallarmisskilningi um eðli réttarríkisins og framkvæmd laga gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum.



Aðfarir Seðlabankans taka yfir tæpan áratug og strax í upphafi var ljóst hvílík sneypuför var í uppsiglingu. En það hefur ekkert hamið kærugleði bankans sem alltaf hefur látið niðurstöðu ákæruvalds sem vind um eyru þjóta.



Kostnaður bankans fyrir samfélagið, fyrirtæki og einstaklinga nemur milljörðum króna. Ásetningur bankans hefur verið einbeittur og yfirlýsingar forystumanna bankans á umliðnum árum lýsa fádæma forherðingu og valdhroka.



Eru starfsmenn Seðlabankans einu aðilarnir í samfélaginu sem geta brotið af sér án þess að gjalda þess?



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×