Menning

Þriðjungur ungs fólks ekki lesið bók til gamans síðasta árið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jólin eru framundan en þá grípa margir Íslendingar í bækur.
Jólin eru framundan en þá grípa margir Íslendingar í bækur. vísir/getty
Rúmlega tveir af hverjum þremur (68%) hafa lesið bækur á íslensku sér til skemmtunar á síðustu 12 mánuðum en nær helmingur landsmanna (42%) sagðist að jafnaði lesa bækur í hverri viku. Þetta sýna niðurstöður nýrrar könnunar MMR á lestrarvenjum landsmanna sem framkvæmd var dagana 8.-12. nóvember. Athygli vekur að tæplega þriðjungur ungs fólks hefur ekki lesið sér til gamans undanfarið ár.

Kváðust 41% svarenda eingöngu hafa lesið bækur á íslensku sér til skemmtunar, 27% kváðust hafa lesið bækur á bæði íslensku og öðrum tungumálum og 7% kváðust einungis hafa lesið bækur á öðrum tungumálum.

Þá kváðust 25% svarenda ekki hafa lesið neinar bækur sér til skemmtunar yfir síðustu 12 mánuði.

Konur líklegri en karlar

Alls kváðust 16% landsmanna að jafnaði lesa sér til skemmtunar daglega en 19% kváðust lesa 2-6 sinnum í viku og 7% vikulega. Þá kváðust önnur 7% að meðaltali lesa sér til gamans 2-3 sinnum í mánuði, 7% einu sinni í mánuði og 19% sjaldnar en mánaðarlega.

Konur (74%) reyndust líklegri en karlar (62%) til að segjast hafa lesið bækur á íslensku sér til skemmtunar á síðustu 12 mánuðum en karlar (31%) voru líklegri en konur (18%) til að segjast ekki hafa lesið neinar bækur sér til skemmtunar yfir sama tímabil.

Þá jókst lestur í takt við hækkandi aldur en af þeim 68 ára og eldri kváðust 84% hafa lesið bækur á íslensku sér til skemmtunar, samanborið við einungis 55% þeirra á aldrinum 18-29 ára.

Svarendur í yngsta aldurshópi voru þó líklegust allra aldurshópa til að segjast einungis hafa lesið bækur á öðrum tungumálum en íslensku (14%). Þá kváðust 31% þeirra á aldrinum 18-29 ára og 28% þeirra á aldrinum 30-39 ára ekki hafa lesið neinar bækur sér til skemmtunar á síðustu 12 mánuðum, samanborið við 21% þeirra á aldrinum 50-67 ára og 11% þeirra 68 ára og eldri.



Meira lesið úti á landi

Svarendur á landsbyggðinni (70%) reyndust líklegri en íbúar höfuðborgarsvæðisins (66%) til að segjast hafa lesið bækur á íslensku sér til skemmtunar en 10% svarenda sem búsettir voru á höfuðborgarsvæðinu kváðust eingöngu hafa lesið bækur á öðrum tungumálum sér til skemmtunar yfir síðastliðið ár, samanborið við 3% þeirra af landsbyggðinni. Lestur til skemmtunar, bæði á bókum á íslensku og á öðrum tungumálum, jókst með aukinni menntun sem og með auknum heimilistekjum.

Ef litið er til stjórnmálaskoðana má sjá að stuðningsfólk Vinstri grænna (88%) reyndist líklegast til að segjast hafa lesið bækur á íslensku sér til skemmtunar en stuðningsfólk Pírata (14%) og Framsóknarflokks (12%) reyndust líklegust til að segjast eingöngu hafa lesið bækur á öðrum tungumálum en íslensku. Hlutfall þeirra sem sögðust ekki hafa lesið neinar bækur sér til skemmtunar yfir síðustu 12 mánuði reyndist hæst hjá stuðningsfólki Flokks fólksins (37%) og Miðflokks (31%) en lægst hjá stuðningsfólki Vinstri grænna (5%).

Konur (48%) voru einnig líklegri en karlar (36%) til að segjast að jafnaði lesa bækur vikulega eða oftar en karlar (50%) voru líklegri en konur (59%) til að segjast lesa sér til skemmtunar sjaldnar en mánaðarlega eða aldrei. Fjöldi þeirra sem kváðust lesa vikulega eða oftar jókst með aldri en 73% svarenda í elsta aldurshópi (68 ára og eldri) kváðust lesa vikulega eða oftar, samanborið við einungis 27% þeirra yngstu (18-29 ára). Þá kváðust 55% svarenda 18-29 ára og 50% þeirra 30-49 ára lesa sér til skemmtunar sjaldnar en mánaðarlega eða aldrei. Fjöldi þeirra sem kváðust lesa sér til skemmtunar að jafnaði í hverri viku eða oftar jókst með aukinni menntun og heimilistekjum en lítinn mun var að sjá á tíðni lesturs eftir búsetu.



Vinstri græn lesa mest

Stuðningsfólk Vinstri grænna (52%) og Framsóknarflokks (49%) voru líklegust til að segjast að jafnaði lesa sér til skemmtunar í hverri viku eða oftar en stuðningsfólk Miðflokks (33%) og Flokks fólksins (35%) reyndust ólíklegust. Þá reyndist stuðningsfólk Miðflokks líklegast til að segjast að jafnaði lesa sér til skemmtunar sjaldnar en mánaðarlega eða aldrei (56%).

Könnunin fór fram dagana 8. til 12. nóvember og náði til 1048 einstaklinga sem valdir voru handhófskennt úr hópi álitsgjafa MMR.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×