Handbolti

Aalborg unnu Fuchse Berlin með tveimur mörkum í Íslendingaslag

Bjarni Þórarinn Hallfreðsson skrifar
Ómar Ingi skoraði fjögur fyrir Aalborg í dag
Ómar Ingi skoraði fjögur fyrir Aalborg í dag Vísir/Getty
Aalborg unnu þýska félagið Fuchse Berlin í Íslendingaslag í EHF-bikarnum í dag, 31-29. Íslensku mörkin urðu tólf í dag.



Bjarki Már Elísson og félagar í Fuchse Berlin heimsóttu Janus Daða Smárason og Ómar Inga Magnússon og liðsfélaga þeirra í Aalborg en þetta var fyrri leikur liðanna í forkeppni EHF-bikarsins.



Aalborg náðu þrigga marka forystu snemma leiks en við það tóku Berlin við sér og jöfnuðu leikinn í 8-8. Eftir það skiptust liðin á að ná forystunni og var allt jafnt í hálfleik, 13-13.



Liðin hófu seinni hálfleikinn svipað og þeim fyrri lauk, skiptust á að leiða en eftir nokkrar mínútur náðu Aalborg þriggja marka forystu. Þegar um stundafjórðungur var til leiksloka var staðan 24-20 fyrir Aalborg en þá hrökk Berlin í gang og jöfnuðu leikinn er um tíu mínútur voru eftir.



Það voru hins vegar Aalborg sem reyndust sterkari á lokamínútunum og unnu þeir tveggja marka sigur, 31-29.



Ómar Ingi skoraði fjögur mörk fyrir Aalborg og Janus Daði bætti við tveimur. Hjá Berlin var Bjarki Már næst markahæstur með sex mörk.



Seinni leikurinn fer fram næstu helgi og einvígið enn galopið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×