Fótbolti

Litið yfir Þjóðadeildina | Hvaða lið fara upp um deild og hvaða lið falla?

Bjarni Þórarinn Hallfreðsson skrifar
Íslendingar féllu niður í B-deild Þjóðadeildarinnar en Belgar eiga góðan möguleika á að komast í undanúrslit
Íslendingar féllu niður í B-deild Þjóðadeildarinnar en Belgar eiga góðan möguleika á að komast í undanúrslit Vísir/Getty
Nú styttist í annan endann á fyrstu riðlakeppni Þjóðadeildar UEFA og er því vert að sjá hver staðan er í keppninni, hvaða lið fara upp um deild og hvaða lið falla.



A-deild:



Líkt og alþjóð veit féllu Íslendingar úr A-deild Þjóðadeildarinnar en liðið hefur tapað báðum sínum leikjum gegn Belgíu og Sviss. Belgar eru með þriggja stiga forystu í riðli tvö og dugir jafntefli gegn Sviss til þess að komast í undanúrslit. Svisslendingar verða að vinna Belga á heimavelli á morgun til þess að komast í undanúrslitin.

Hollendingar hafa komið á óvart í A-deildinni en þeir unnu heimsmeistara Frakka í gær og eiga möguleika á að vinna riðilinnVísir/Getty
Í riðli eitt varð ljóst í gær með sigri Hollands á heimsmeisturum Frakklands að fjórfaldir heimsmeistarar Þýskalands falla úr A-deildinni. Frakkar hafa lokið leik og eru í efsta sætinu eins og er. En Hollendingar geta hreppt fyrsta sætið og dugir þeim jafntefli gegn Þýskalandi á mánudag. Yrði það óvænt í ljósi þess að Hollendingar hafa verið í lægð undanfarin ár. Þeir virðast hins vegar vera á uppleið aftur undir stjórn Ronald Koeman.

Portúgalir standa vel að vígi í riðli þrjú en Pólverjar falla niður í B-deildVísir/Getty
Pólverjar falla niður í B-deildina og er því keppnin um sæti í undanúrslitum á milli Evrópumeistara Portúgals og Ítalíu. Liðin mætast einmitt í dag, og geta Portúgalar tryggt sæti sitt í undanúrslitum með jafntefli.

England getur unnið riðilinn en einnig fallið. Úrslitin ráðast í spennandi riðli fjögur á morgunVísir/Getty
Gríðarleg spenna er í riðli fjögur en þar eru Spánverjar á toppnum með sex stig og hafa lokið leik. Englendingar og Króatar eru jöfn í 2.-3. sæti. England og Króatía mætast á morgun í algjörum úrslitaleik þar sem mikið er undir. Sigurliðið á Wembley á morgun fer í undanúrslitin en tapliðið fellur í B-deildina. Þetta er ekki flókið. Spánverjar eiga enn möguleika á að komast í undanúrslit en þeir þurfa að treysta á að England og Króatía geri jafntefli. Gerist það, falla Króatar í B-deildina á markatölu.

Rússar standa vel að vígi í B-deildinni og þá eru Úkraínumenn komnir upp í A-deildinaVísir/Getty
B-deild:



Í B, C og D-deild Þjóðadeildarinnar er mikið um að keppa því eitt laust sæti á Evrópumótið 2020 er í húfi. Liðin með besta árangurinn í deildunum, af þeim liðum sem komast ekki á EM í gegnum undankeppnina mætast í umspili um laust sæti á EM. Þjóðadeildin er því gullið tækifæri, sérstaklega fyrir lið í C-deild og D-deild að komast bakdyrameginn á EM.



Í fyrsta riðli B-deildar Þjóðadeildarinnar er Úkraína búnir að vinna riðilinn og leika þeir því A-deild í næstu keppni. Einn leikur er eftir í riðlinum en þá mætast Tékkland og Slóvakía í úrslitaleik um hvort liðið fellur í C-deild. Markatalan er Tékkum í hag og dugir þeim því jafntefli til þess að vera áfram í B-deild. Slóvakar verða að vinna til þess að falla ekki niður í C-deild.



Rússar standa vel að vígi í riðli tvö og gætu þeir komist í A-deildina í dag, án þess að spila. Tyrkir og Svíar mætast í dag og verða Svíar að vinna, en þeir sitja á botninum með eitt stig. Vinni Svíar báða sína leiki, komast þeir í A-deildina, en tapi þeir í dag, falla þeir í C-deild. Tyrkland á ekki möguleika á að komast í A-deildina.

Danir unnu sér inn þátttökurétt í A-deildinni með sigri á Wales í gær. Bosnía og Hersegóvína er einnig komið í A-deildinaVísir/Getty
Úrslitin eru ráðin í riðli 3 í B-deildinni. Bosnía og Hersegóvína munu leika í A-deildinni, en Norður-Írland fellur í C-deild. Austurríki verður áfram í B-deildinni.



Danir komust í gærkvöldi í A-deildina með sigri á Wales en ljóst var fyrir leikinn að sigurliðið myndi vinna riðilinn. Írar falla niður í C-deild en Wales verður áfram í B-deildinni.

Finnar hafa verið að spila feiknarvel og eru komnir upp í B-deildVísir/Getty
C-deild:



Í C-deild er einn þriggja liða riðill og þrír fjögurra liða riðlar. Því mun eitt lið í þriðja sæti falla niður í D-deild ásamt þeim þremur liðum í fjórða sæti.



Ísraelar standa vel að vígi í riðli eitt en þeir geta ekki fallið úr C-deildinni. Þeir eru á toppnum með sex stig en Skotland og Albanía eru í 2. og 3. sæti með þrjú stig. Öll lið eiga enn möguleika á að komast í B-deildina en það verður erfitt fyrir Albani. Albanía og Skotland mætast í dag, og nái Skotland stigi í dag verður hreinn úrslitaleikur á þriðjudag á milli Skotlands og Ísrael um sæti í B-deild.



Frændur okkar Finnar hafa staðið sig feiknarvel í riðli tvö og eru búnir að vinna hann, og leika því í B-deild í næstu keppni. Þeir eiga því góðan möguleika á að komast á EM í gegnum Þjóðadeildina, takist þeim ekki að komast þangað í gegnum undankeppnina. Grikkir geta ekki fallið og leika því í C-deildinni áfram en Eistland er fallið niður í D-deild. Ungverjar eru í þriðja sæti og gætu enn fallið niður í C-deild, en þeir standa þó vel að vígi á meðal liða í þriðja sæti C-deildarinnar.

Lars Lagerbeck er í góðum séns að stýra Norðmönnum upp í B-deildinaVísir/getty
Lars Lagerbeck og lærisveinar hans hjá Noregi eru í hörku séns um að komast í B-deildina en Norðmenn mæta Kýpur í lokaumferðinni á sunnudag í riðli þrjú. Búlgaría eru jafnir Norðmönnum að stigum en þeir mæta Slóveníu sem er þegar fallið. Norðmenn eiga eitt mark á Búlgaríu fyrir lokaumferðina og verða því að ná í sömu úrslit, eða betri og Búlgaría í lokaumferðinni til þess að komast í B-deildina. Kýpur stendur verst að vígi af þeim liðum sem sitja í þriðja sætinu og þurfa þeir að vinna Norðmenn til þess að falla ekki niður í C-deild.



Serbía er í góðri stöðu í riðli fjögur en þeir unnu nágranna sína frá Svartfjallalandi í dag. Serbar eru því komnir með 11 stig á toppnum en geta þeir endanlega tryggt sæti sitt í B-deildinni í kvöld þegar Rúmenar mæta Litháen. Takist Rúmenía ekki að vinna eru Serbar öruggir upp í B-deildina. Nágrannalöndin Serbía og Svartfjallaland eru í mikilli baráttu í riðli fjögur um að komast í B-deildina en þau mætast einmitt í dag. Litháen eru á botninum án stiga en þeir verða að vinna báða sína leiki sem eftir eru til þess að eiga enn möguleika á að vera áfram í C-deild. Sú von er hins vegar veik. Serbía mætir Litháen og Svartfjallaland fær Rúmena í heimsókn í lokaumferðinni sem fram fer á þriðjudag.

Georgíumenn eru komnir upp í C-deildVísir/Getty
D-deild:



Ekkert lið fellur úr D-deildinni og en sigurliðið í hverjum riðli kemst upp í C-deild. Ólíklegt er að nokkurt lið í D-deild komist á EM í gegnum undankeppnina og er þetta því risastór gluggi fyrir liðin sem vinna sína riðla til að komast á EM.



Georgía er búið að vinna riðil eitt í D-deildinni en þeir eru í riðli með Kasakstan, Lettlandi og Andorra.



Hvíta-Rússland stendur best að vígi í riðli tvö en þeir eru á toppnum með tveggja stiga forystu á Lúxemborg. Móldóva situr í þriðja sæti en San Marínó eru á botninum án stiga. Hvíta-Rússland mætir San Marínó í lokaumferðinni og ætti að vinna þá, og tryggja sæti sitt í C-deildinni.

 

Enn á eftir að leika tvær umferðir í riðli þrjú en þar eru frændur okkar Færeyingar. Kósóvó eru á toppnum með átta stig en Aserbaídsjan er í öðru sæti með sex stig. Færeyjar koma þar á eftir með fjögur stig. Efstu þrjú liðin eiga möguleika á að komast í C-deildina en næst síðasta umferðin fer fram í dag. Malta er á botninum og getur ekki komist áfram. Aserbaídsjan og Færeyjar eigast við í dag á meðan Malta fær Kósóvó í heimsókn. Kósóvó getur því komist upp í C-deild í dag, vinni þeir Möltu og Færeyjar vinni Aserbaídsjan.



Í riðli fjögur eiga aðeins tvö lið möguleika á að komast í C-deildina. Það eru Makedónía og Armenía. Makedóníumenn standa vel að vígi og þurfa þeir jafntefli gegn Gíbraltar í lokaumferðinni. Armenar verða að treysta á að Gíbraltar vinni Makedóníu og á sama tíma verða þeir að vinna Liechtenstein.



Á mánudag verður komin heildarmynd á hvaða lið leika í hvaða deildum og verður áhugavert að sjá hvaða liðum Ísland getur mætt í B-deildinni árið 2020 þegar næsta keppni Þjóðadeildarinnar hefst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×